Viðskipti innlent

Stöðugleikasáttmálinn í hættu

Gunnar Örn Jónsson skrifar
Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka Atvinnulífsins.
Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka Atvinnulífsins.
„Ein af forsendum stöðugleikasáttmálans var sú að stýrivextir væru komnir niður í níu prósent í haust en það verður að teljast ólíklegt í ljósi ákvörðunar Seðlabankans," segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka Atvinnulífsins í viðtali við fréttastofu.

Vilhjálmur segir að sú ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans um að halda stýrivöxtum óbreyttum í 12 prósentum sé mjög slæm fyrir atvinnulífið.

Stýrivaxtaákvarðanir bankans í september og október munu ráða miklu um áframhaldið að sögn Vilhjálms.

„Ekki er öll nótt úti þar sem stýrivextir geti lækkað með haustinu. Ein af forsendum stöðugleikasáttmálans var sú að stýrivextir væru komnir niður í níu prósent í haust en það verður að teljast ólíklegt," segir Vilhjálmur

Að hans mati grafa gjaldeyrishöftin undan trúverðugleika krónunnar.

„Gjaldeyrishöft eiga að vinna gegn veikingu krónunnar en það virkar ekki frekar en að verðlagshöft virka til að halda niðri verðbólgu þannig að höftin eru gjörsamlega vonlaus."

Að lokum segir Vilhjálmur að enginn rekstur standi undir þessum vöxtum. „Það dettur engum í hug að fjárfesta á Íslandi í svona rekstrarumhverfi," segir Vilhjálmur.




Tengdar fréttir

Spáð óbreyttum 12% stýrivöxtum - Hækkun hugsanleg

Hagfræðideildin segir að í yfirlýsingu nefndarinnar við síðustu vaxtaákvörðun hafi mikil áhersla verið lögð á að veiking krónunnar frá því í mars hafi farið langt fram úr því sem nefndin teldi viðunandi. Auk þess kom fram kom í máli nefndarinnar að haldi krónan áfram að veikjast og kostnaðarhækkanir að velta út í verðlagið sé ekki útilokað að vextir verði hækkaðir.

Óbreyttir stýrivextir

Peningastefnunefnd Seðlabankans ákvað í dag að halda stýrivöxtum óbreyttum í 12 prósentum. Bankinn gerir nánari grein fyrir ákvörðuninni klukkan ellefu.

Engin vaxtalækkun það sem eftir lifir árs

Greiningardeild Kaupþings telur að stýrivextir haldist óbreyttir og engin vaxtalækkun muni eiga sér stað það sem eftir lifir árs. Líklegt er að vextir hækki með afnámi gjaldeyrishafta.

Spá óbreyttum stýrivöxtum næstu átta mánuði

Greiningardeild Íslandsbanka spáir því að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands muni haldi stýrivöxtum óbreyttum í 12% næstu átta mánuði eða fram í apríl á næsta ári. Næsti vaxtaákvörðunardagur nefndarinnar er á fimmtudag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×