Viðskipti innlent

FÍS gagnrýnir frekari hækkanir á tryggingargjaldi

Félag íslenskra stórkaupmanna (FÍS)segir að frekari hækkun tryggingagjalds í stað orkuskatta muni bitna harkalega á verslun og þjónustu og hefur áhrif á atvinnustig. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem FÍS hefur sent frá sér.

Í viðræðum SA og ASÍ um stöðugleikasáttmála hefur verið rædd sú hugmynd að hækka beri tryggingagjald á öll atvinnufyrirtæki í stað fyrirhugaðra orkuskatta.

Í yfirlýsingu FÍS segir að ástæða sé til að árétta að frekari hækkun tryggingagjalds er skattlagning sem leggst þyngra á verslunar og þjónustufyrirtæki en annars konar fyrirtæki í landinu. Áætla má að a.m.k. 60% starfa í einkageiranum séu í verslunar og þjónustugreinum og því augljóst að frekari hækkun tryggingagjalds muni bitna hart á þessum geira.

Ljóst er að hugmyndir stjórnvalda um orkuskatta voru ófullburða þegar þær komu fram og hafa stjórnvöld réttilega verið gagnrýnd harðlega fyrir þannig vinnubrögð. FÍS telur mikilvægt að tryggja áframhaldandi áhuga erlendra aðila á að fjárfesta hér á landi.

Það eitt gefur þó ekki tilefni til að leggja ennþá meiri byrðar á verslun og þjónustu í landinu. Mikilvægt er að aðrar leiðir séu farnar til að brúa fjárlagahallann.

FÍS telur mjög mikilvægt að standa vörð um stöðugleika á vinnumarkaði. Með það að leiðarljósi er félagið tilbúið að virða þegar gerða kjarasamninga - þrátt fyrir að fyrirheit stjórnvalda hafi í ýmsu brugðist. Hugmyndir um aukna skattbyrði á greinina eða á neytendur kunna þó að breyta þeirri afstöðu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×