Viðskipti innlent

Kaupþing yfirtekur móðurfélag Haga að fullu

Karen Kjartansdóttir skrifar

Kauþing hefur náð yfirráðum í 1998, móðurfélagi Haga til frambúðar. Samkeppniseftirlitið hefur fengið formlega samrunatilkynningu frá Kaupþingi.

Páll Gunnar Pálsson forstjóri Samkeppniseftilitsins staðfesti í samtali við fréttastofu að beiðnin hafi borist fyrir um viku. Kappkostað verði að ljúka rannsókn málsnis sem fyrst.

Samkeppniseftirlitið tekur málið fyrir á grundvelli 17. greinar samkeppnislaganna en þar segir að samruni teljist hafa átt sér stað þegar breyting verði á yfirráðum til frambúðar.

Í þar síðustu viku flutti fréttastofa fyrst fréttir af því að sérfræðingar frá Nýja Kaupþingi hefðu tekið sæti í stjórn félagsins auk þess sem heimilisfang þess hafði verið flutt í höfuðstöðvar bankans.

Eignarhaldsfélagið 1998 sem á Haga skuldar Kaupþingi 48 milljarða króna. Endurskipulagning á eignarhaldi Haga hefur staðið yfir undanfarið. Í samkomulagi bankans við 1998 hefur falist að Kaupþing eignist 40% í Högum og Jón Ásgeir Jóhannesson og viðskiptafélagar hans 60% gegn því að leggja fram sjö milljarða króna. Til þess höfðu þeir nokkrar vikur.

Í samtali við Fréttastofu hafi Jóhannes Jónsson kenndur við Bónus sagt að hann og fjölskylda hans væri ekki að tapa völdum í fyrirtækinu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×