Viðskipti innlent

Íslandsbanki segir engar reglur hafa verið brotnar

Víglundur Þorsteinsson sakar ríkisbankana um að hygla fyrirtækjum í þeirra eigu. Íslandsbanki neitar að reglur séu brotnar. Mynd/ GVA.
Víglundur Þorsteinsson sakar ríkisbankana um að hygla fyrirtækjum í þeirra eigu. Íslandsbanki neitar að reglur séu brotnar. Mynd/ GVA.
Íslandsbanki fylgir í öllu tilmælum frá Samkeppnisstofnun um að stuðla að opnu og gagnsæju ferli við meðhöndlun viðskiptavina og til að stuðla að samkeppni á íslenskum markaði eins og kostur er," segir í yfirlýsingu sem bankinn sendi frá sér vegna fréttar Stöðvar 2 og Vísis í kvöld um að bankinn hygli fyrirtækjum í þeirra eigu. Í yfirlýsingunni segir að strangar reglur gildi um beina þátttöku fjármálafyrirtækja í ótengdum rekstri. Slíkt sé háð skilyrðum Fjármálaeftirlits og hafi bankinn skilað eftirlitinu sérstakri áætlun um rekstraráform og tímaáætlun í því sambandi.

Í tilkynningunni segir að umkvörtunum stjórnarformanns BM Vallár hafi verið tekið af mikilli festu og alvöru í bankanum og regluverði hafi verið falið að kanna hvort starfsreglur bankans í þessum efni hafi verið brotnar. Svo hafi ekki verið.

„Steypustöðin hf. er komin í söluferli hjá Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka sem áformar að auglýsa fyrirtækið til sölu á næstu vikum. Forstöðumaður Lánaeftirlits bankans féllst á taka að sér stjórnarformennsku í fyrirtækinu á meðan unnið yrði að sölu þess þar sem fyrrum stjórnarformaður, Jón Steingrímsson, baðst lausnar í vor er hann hóf störf hjá Landsbankanum.

Það skal ítrekað að Íslandsbanki eða starfsmenn hans hafa aldrei haft afskipti af því hvar viðskiptavinir bankans versla sitt hráefni. Ákvarðanir um lánveitingar til viðskiptavina bankans eru samkvæmt lánareglum hans og byggja á fjárhagsstöðu viðskiptavina, greiðsluhæfi og tryggingum. Lánareglur eru birtar á vef bankans. Gerðar eru sömu kröfur til félaga í eigu bankans og annarra um fjárhagslegt hæfi," segir í tilkynningu frá Íslandsbanka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×