Viðskipti innlent

Gera kröfur í þrotabú Glitnis vegna slæmrar ráðgjafar

Viðskiptavinir Glitnis gera kröfur í þrotabúið vegna slæmrar ráðgjafar sem þeir fengu hjá bankanum. Þá er einnig nokkuð um að fyrrverandi stjórnendur bankans geri kröfu vegna ógreiddra bónusgreiðslna.

Kröfulýsingafrestur rann út í Glitni í vikunni. Stór hluti krafnanna barst slitastjórn síðustu tvo daganna eða meira en helmingur. Um 25 manns hafa nú unnið að því dag og nótt að skrá kröfurnar en stefnt er að því að kröfuhafaskráin verði birt kröfuhöfum þann 10. desember. Ekki er komin endanleg tala á fjölda krafna en talið er að kröfurnar verði um 9 þúsund talsins.

Samkvæmt heimildum fréttastofu gera nokkrir viðskiptavinir Glitnis kröfu í búið. Kröfurnar eru byggðar á því að viðskiptavinirnir hafi fengið slæma ráðgjöf frá starfsmönnum bankans og með því tapað fjármunum sínum. Þá munu einnig nokkrar kröfur vera byggðar á því að starfsmenn bankans hafi ekki fylgt fyrirmælum þeirra eftir. Kröfur sem þessar hlaupa á milljónum króna.

Fyrrverandi starfsmenn gera einnig kröfur í búið en nokkuð mun vera um að fyrrverandi stjórnendur krefjist þess að fá bónusgreiðslur greiddar.

Kröfuhafafundur verður haldinn þann 17. desember en stefnt er að því að búið verði að taka afstöðu til krafnanna fyrir þann tíma.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×