Innlent

Minnast hruns múrsins

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Austur-Þjóðverjar bíða þess að opnað verði milli Austur- og Vestur-Þýskalands árið 1989. Mynd/ AFP.
Austur-Þjóðverjar bíða þess að opnað verði milli Austur- og Vestur-Þýskalands árið 1989. Mynd/ AFP.
Sumarið 1989 varð fyrir margra hluta sakir sögulegt. Nærri lá að atburðirnir á Torgi hins himneska friðar í júní næðu að skyggja á óróleikann í Austur-Þýskalandi eftir sveitarstjórnarkosningarnar í byrjun maí. Seinni hluta sumars og fram á haust jókst þungi flóttafólks frá Austur-Þýskalandi og í byrjun nóvember hótuðu tékknesk yfirvöld að hleypa ekki fleirum Austur-Þjóðverjum inn í landið.

Þrátt fyrir kröftug mótmæli í stærstu borgum landsins átti líklega enginn von á að Berlínarmúrinn hryndi svo að segja yfir nótt þann 9. nóvember 1989. Múrinn var rifinn og erfitt að sjá hvar hann var jafnvel fyrir fólk sem gekk daglega meðfram honum í fleiri ár eins og Ágúst Þór Árnason kennari við Háskólann á Akureyri gerði á níunda áratugnum.

Ágúst heldur fyrirlestur á vegum Varðbergs í Norræna húsinu í hádeginu á mánudaginn. Í erindi sínu sem nefnist Múrbrot horfinnar hugmyndafræði - 20 ár frá falli Berlínarmúrsins mun Ágúst velta því fyrir sér hvaða hugmyndir hafi legið að baki því að reisa múr til að halda ríkisborgurum heils ríkis frá því að yfirgefa eigið land. Hverskonar fyrirbæri Austur-Þýskaland var og hvort einhver ástæða sé til að velta grundvelli þess þjóðskipulags fyrir sér sem hvarf í elf sögunnar með hruni múrsins.

Fundurinn hefst kl. 12 í Norræna húsinu á mánudaginn. Þá mun Björn Bjarnason fyrrverandi ráðherra jafnframt flytja erindi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×