Enski boltinn

Knattspyrnufélögin á Englandi fá mismikið fyrir peninginn

Eigendur Totttenham hafa fengið ansi lítið fyrir peninginn í vetur eins og síðustu ár
Eigendur Totttenham hafa fengið ansi lítið fyrir peninginn í vetur eins og síðustu ár NordicPhotos/GettyImages

Heimskreppan virðist lítil áhrif hafa á félögin í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Félögin í deildinni hafa í sínum röðum leikmenn sem kosta 1,65 milljarða punda eða 276 milljarða króna - og þá er alveg ótalinn launakostnaður.

Í gær var tilkynnt að Sky Sports hefði tryggt sér áframhaldandi sýningarétt á leikjum í úrvalsdeildinni næstu ár fyrir rúman milljarð punda og tryggir sá samningur að félögin í deildinni fá áfram feitan bita fyrir sjónvarpsrétt næstu árin.

Seint verður sagt að auðnum sé jafnt skipt í deildinni, því munurinn á dýrasta liðinu Chelsea og ódýrasta liðinu Hull - er stjarnfræðilegur.

Hull City kostaði jafn mikið og Damien Duff



Þannig kosta leikmenn Chelsea 200 milljónir punda en hópurinn hjá Hull er metinn á rúmar 17 milljónir punda - og þá er dýrasti leikmaður í sögu félagsins Jimmy Bullard tekinn með. Hann kostaði félagið fimm milljónir punda í janúar og kostaði heimingi meira en næstdýrasti leikmaður í sögu félagsins.

Sem dæmi um gríðarlegan mun á dýrasta og ódýrasta liðinu má nefna að allur leikmannahópur Hull City í dag kostar um það bil jafn mikið og Chelsea borgaði fyrir Damien Duff fyrir sex árum síðan.

Nokkur lið eru í sérflokki þegar kemur að því að spreða peningum. Chelsea, Manchester United, Tottenham, Liverpool og Manchester City eyða öll yfir 100 milljónum punda í leikmenn sína - en eins og sjá má á árangri City og Tottenham, tryggir slík eyðsla ekki alltaf gott gengi á knattspyrnuvellinum.

Hér fyrir neðan má sjá samantekt sem byggð er á ítarlegri úttekt Daily Mail á mestu eyðsluklónum í enska boltanum.



NordicPhotos/GettyImages
1. Chelsea - 33,5 milljarðar króna



Milljarðar Roman Abramovich keyptu tvo deildartitla, enska bikarinn, tvo deildabikara og annað sæti í Meistaradeildinni á fjórum árum. Vera má að það hafi verið góð viðskipti að kaupa Frank Lampard á 11 milljónir frá West Ham og fá Michael Ballack frítt frá Bayern, en Chelsea hefur líka eitt tugum milljóna punda í menn eins og Andriy Shevhenko og Adrian Mutu.

2. Manchester United - 31,7 milljarðar

Sigursælt lið Manchester United undanfarin ár er að miklu leyti byggt upp á leikmönnum sem ólust upp hjá félaginu á borð við Ryan Giggs og Paul Scholes, en samt er hópur liðsins ekki ódýr.

Þegar tekið er mið af því að United borgaði hátt í 50 milljónir punda fyrir Rio Ferdinand og Michael Carrick, má með sanni segja að þær ríflega 12 milljónir punda sem félagið greiddi fyrir Cristiano Ronaldo hafi verið rán um hábjartan dag.

3. Tottenham - 31,3 milljarðar

"Það eru öll ljós kveikt - það er bara enginn heima," sagði í kvæðinu - og gætu verið orð sem lýsa Tottenham-liðinu undanfarin ár.

Tottenham eyðir og eyðir á hverju ári en það er eins og árangur liðsins verði lakari með hverri milljóninni sem félagið spreðar í leikmenn.

Uppskeran fyrir þennan 31 milljarð er einn deildabikar og fallbarátta og Harry Redknapp kvartar reglulega yfir því að hann sé með þröngan leikmannahóp.

4. Manchester City - 27,8 milljarðar

Til stendur að koma City á kortið sem einu besta liði Evrópu á allra næstu árum, en enn sem komið er hafa stuðningsmenn liðsins ekki séð nema glefsur af því sem ætla mætti að menn fengju fyrir 28 milljarða.

5. Liverpool - 23,5 milljarðar

Liverpool borgaði metfé, 22 milljónir punda, fyrir spænska framherjann Fernando Torres og hefur hann verið hverrar krónu virði til þessa.

Það sama verður þó ekki sagt um nokkra 10+ milljón punda menn í hópnum s.s. eins og Albert Riera sem kostaði 12 milljónir.

Heimamenn eins og Steven Gerrard og Jamie Carragher vega mun þyngra í hóp liðsins.



NordcPhotos/GettyImages
6. Newcastle - 13,6 milljarðar

Dennis Wise og félagar hjá Newcastle þurfa að fara í rækilega naflaskoðun og velta fyrir sér af hverju 13 milljarðar skila liðinu ekki lengra en í fallbaráttu.

7. Aston Villa - 13,6 milljarðar

Kaup félagsins á Emile Heskey eru táknræn fyrir innkaupastefnu Villa manna. Engar flugeldasýningar - bara traustir leikmenn. Ungu leikmennirnir hans Martin O´Neill eru í ágætri stöðu til að berjast óvænt um Meistaradeildarsæti í vor.

8. Arsenal - 12,4 milljarðar

Arsenal liðið er jafnan skipað ungum og efnilegum leikmönnum og það er mál manna að liðið gæti farið langt ef það keypti nokkra reyndari stjörnur í bland. Það er hinsvegar ekki að ferðafræði Arsenal-manna, sem vilja fara varlega í fjármálunum eftir að hafa byggt nýjan leikvang.

9. Sunderland - 11,4 milljarðar

Roy Keane eyddi fúlgum fjár í að tryggja að Sunderland festi sig í sessi í úrvalsdeildinni, en þó vantar nokkuð upp á að liðið sé að standa undir væntingum.



10. West Ham - 10,4 milljarðar


West Ham er með stóran leikmannahóp og Gianfranco Zola hefur verið klókur að losa sig við leikmenn utan hóps á lánssamninga. Að öðru leyti má segja að launakostnaður félagsins sé á pari við stærð þess. Nokkrar óvissu gætir þó með framtíð félagsins vegna áhrifa kreppunnar á eigandann Björgólf Guðmundsson.



11. Everton - 10 milljarðar

David Moyes knattspyrnustjóri hefur búið til sannkallaða naglasúpu á Goodison Park. Það þykir nokkuð gott að halda þeim stöðugleika sem Moyes hefur náð með Everton með hóp upp á 10 milljarða.

12. Portsmouth - 8,6 milljarðar

Leikmannahópur Portsmouth leit út fyrir að vera fenginn á kostakjörum þegar Harry Redknapp stýrði liðinu til sigurs í ensku bikarkeppninni síðasta sumar.

Undir stjórn Tony Adams virkar hópurinn hinsvegar dýr, þegar horft er til þess að hann er helmingi dýrari en hópur Stoke City - og liðin eru jöfn að stigum í úrvalsdeildinni.

13. Middlesbrough - 7,9 milljarðar

Flestir myndu ætla að hægt væri að halda liði sem kostar tæpa 8 milljarða í úrvalsdeildinni - en óvíst er að Gareth Southgate muni takast það verkefni í vor.

14. Fulham - 7,5 milljarðar

Hér er á ferðinni diet-útgáfa af Everton-liði David Moyes. Roy Hodgson hefur tekist að búa til þokkalegt lið með klókum kaupum af litlum efnum.

15. Wigan - 6,4 milljarðar

Steve Bruce hefur gert ótrúlega hluti með nánast enga peninga milli handanna. Viðskipti eins og Wilson Palacios (keyptur á milljón punda - seldur á 13) gefa góða mynd af því hve klókur Bruce er að næla sér í leikmenn. Þá fékk félagið 3,5 milljónir punda fyrir Emile Heskey skömmu áður en samningur hans rann út.



16. Bolton - 5,8 milljarðar

Setja má spurningamerki við viðskipti eins og 12 milljón punda kaup á Johann Elmander, en Bolton er þó að gera ágæta hluti ef það er borið saman við félög eins og Newcastle og Sunderland.

17. Blackburn - 5,7 milljarðar

Blackburn getur þakkað fyrir að hafa náð að halda í feitasta bitann sinn Roque Santa Cruz í félagaskiptaglugganum og Sam Allardyce á vafalítið eftir að sína klókindi á félagaskiptamarkaðnum í framtíðinni líkt og hann gerði hjá Bolton á sínum tíma.

18. West Brom - 5,3 milljarðar

West Brom var með dýrasta hópinn af liðunum þremur sem komust upp í úrvalsdeildina í fyrra og því má ætla að höggið kæmi þyngst niður á West Brom við fall ef sú yrði niðurstaðan.

19. Stoke City - 4,5 milljarðar

Þessi leikmannahópur hefur í tvígang haldið 0-0 jafntefli við 23 milljarða hóp Liverpool í deildinni. Leikstíll Stoke verður seint talinn þokkafullur, en liðið heldur sínu á aðdáunarverðan hátt.

20. Hull City - 2,9 milljarðar

Leikmannahópur Hull kostaði innan við 10 milljónir punda áður en kom að janúarglugganum en náði einhverjum merkilegasta árangri í sögu úrvalsdeildarinnar á fyrri hluta leiktíðar.

Öskubuskuævintýrið virðist vera á enda og gengi liðsins hefur ekki verið upp á marga fiska á síðustu vikum, en Hull menn geta verið stoltir af liðinu sínu - liði sem spilaði í neðri deildunum fyrir nokkrum árum og var rétt farið á hausinn fyrir áratug.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×