Viðskipti innlent

Eignir lífeyrissjóðanna halda áfram að rýrna

Hrein eign lífeyrissjóðanna skrapp saman um 22,8 milljarða kr. í febrúar og hefur hún þá lækkað um 231,4 milljarða kr. frá því í ágúst í fyrra, fyrir hrun bankanna.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að hrein eign lífeyrissjóðanna til greiðslu lífeyris nam í lok febrúar 1.592 milljörðum kr. samanborið við 1.823 milljarða kr. í lok ágúst í fyrra.

Hrein eign sjóðanna til greiðslu lífeyris var í lok febrúar svipuð og hún var í maí 2007, þrátt fyrir að hreint innflæði vegna iðgjalda umfram lífeyrisgreiðslur hafi verið verulegt á tímabilinu. Að raungildi var hrein eign sjóðanna til greiðslu lífeyris svipuð í lok febrúar og hún var í nóvember 2005. Kemur þetta fram í tölum Seðlabankans.

Lækkunina á hreinni eign lífeyrissjóðanna í febrúar má rekja til lækkunar á erlendri eign lífeyrissjóðanna um 33 milljarða kr sem er tilkomin vegna styrkingar krónunnar í febrúar ásamt verðbreytinga á verðbréfamörkuðum ytra.

Erlendar eignir lífeyrissjóðanna voru 391 milljarðar kr. í lok febrúar eða tæplega fjórðungur af hreinni eign. Erlendar eignir sjóðanna voru 473 milljarða kr. í lok síðastliðins árs og hafa því lækkað um 82 milljarða kr. á fyrstu tveimur mánuðum ársins. Lækkunin skýrist að mestu af gengishækkun krónunnar á sama tímabili.

Þrátt fyrir að síðasta ár hafi verið íslenskum lífeyrissjóðum þungt í skauti eru þeir stórir í samanburði við stærð hagkerfisins og á þann mælikvarða öflugir í alþjóðlegum samanburði. Hrein eign þeirra í lok febrúar nam 105% af áætlaðri vergri landsframleiðslu (VLF) í ár, sem þykir hátt í alþjóðlegum samanburði.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×