Viðskipti innlent

Þolinmæði kröfuhafa Exista þrotin

Frá stjórnarfundi Exista Nýja Kaupþing og aðrir innlendir kröfuhafar vilja setja stjórnendur Exista af og taka félagið yfir. 
Fréttablaðið/Valli
Frá stjórnarfundi Exista Nýja Kaupþing og aðrir innlendir kröfuhafar vilja setja stjórnendur Exista af og taka félagið yfir. Fréttablaðið/Valli

„Þegar Exista seldi Bakkavör tók steininn úr. Þá þvarr allt traust og við hjá bankanum misstum endanlega þolinmæðina,“ segir Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri Nýja Kaupþings.

Bankinn kærði í gær forsvarsmenn Exista auk nokkurra starfsmanna Deloitte og Logos til sérstaks saksóknara vegna hlutafjárhækkunar Exista í desember í fyrra og sölu félagsins á rúmlega fjörutíu prósenta hlut í Bakkavör fyrir um hálfum mánuði. Lögmannsstofurnar sáu um tilkynningu til hlutaskrár vegna hlutafjárhækkunarinnar.

Nýja Kaupþing telur hegningarlög hafa verið brotin en viðurlög við þeim hljóðar upp á allt að sex ára fangelsisdóm. Bankinn mun jafnframt leita viðeigandi einkaréttarlegra úrræða samhliða kærunni, segir í tilkynningu hans.

Bankinn átti veð í öllum hlutum félags Lýðs, starfandi stjórnarformanns Exista, og Ágústs Guðmundssona, forstjóra Bakkavarar, í Exista. Við hlutafjárhækkunina hafi veðin lækkað í tíu prósent úr fjörutíu. Þá hafi salan á Bakkavör verið brot á lánasamningum Exista.

Finnur segir bæði ólöglega staðið að hlutafjárhækkuninni auk þess sem leita hafi átt samþykkis lánardrottna vegna sölunnar á Bakkavör. Þess var ekki leitað.

„Viðræður hafa staðið yfir mánuðum saman um fjárhagslega endur­skipulagningu Exista. Við hefðum gjarnan viljað vinna þetta í sátt við aðra kröfuhafa. En viðræður hafa dregist von úr viti. Okkur sýnist samningsvilji forsvarsmanna félagsins vart til staðar,“ segir Finnur.

Innlendir kröfuhafar hafa um nokkurra mánaða skeið krafist uppstokkunar á Exista, að þeir Erlendur Hjaltason og Sigurður Valtýsson, forstjórar félagsins, fari frá og félagið verði tekið yfir. Í kjölfarið yrði Exista leyst upp. Einu eignir félagsins eru Skipti, móðurfélag Símans, tryggingafélögin VÍS og Lífís, Öryggismiðstöðin og eignaleigufyrirtækið Lýsing. Félagið var stærsti hluthafi Kaupþings og var umsvifamikið á erlendum mörkuðum þar til í fyrrahaust þegar ríkið tók Kaupþing yfir og eignahluturinn varð að engu. Erlendir kröfuhafar hafa á móti viljað fara sér hægar.

Finnur segir málið hafa strandað á tregðu helstu eigenda Exista. Spurning sé um vikur hvenær örlög félagsins ráðist.

„Við höfum ekki séð neina ákæru. Ég vil því ekki tjá mig um hana. En það eru vonbrigði að bankinn vilji fara þessa leið,“ segir Ágúst Guðmundsson, forstjóri Bakkavarar. „Það er best fyrir okkur að sjá hvað þeir eru með og taka málefnalega afstöðu til þess þegar þar að kemur.“ Ekki náðist í Lýð Guðmundsson, stjórnarformann Exista, við vinnslu fréttarinnar. jonab@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×