Viðskipti innlent

Ástralskir bankar hættir að millifæra til Landsbankans

Slæmt orðspor íslenskra banka fer víða um heiminn jafnvel til Ástralíu en einn af fjórum stærstu bönkunum þar í landi, National Australia Bank er hættur að millifæra fé til Landsbankans.

Dr. Páll Þórðarson, dósent í efnafræði við háskólann í New South Wales í Sydney, segir í pósti til visir.is að hann geti ekki lengur greitt af námslánum sínum í gegnum Landsbankann en það gat hann allt fram til febrúar í ár.

Páll sendi visir.is póstinn í framhaldi af frétt hér á vefnum um Danske Bank og peningasendingar til Íslands og segir sem svo virðist að ástralskir bankar séu búnir að loka á Ísland.

"Ég er búin að vera í viðskiptum í rúm 10 ár við National Australia Bank (NAB) sem er einn af fjórum stærstu bönkunum hér í Ástralíu og hef reglulega sent peninga frá NAB á reikning minn í Landsbankanum á Íslandi , aðallega til að standa í skilum af námsláni," segir Páll.

"Síðastliðin ár þá gat ég gert þetta í netbanka NAB og sendi til að mynda greiðslu í febrúar síðastliðnum , það er eftir bankahrun og nafnbreytingar. Þegar ég ætlaði svo að senda aðra greiðslu í ágúst til að borga LÍN, sem er engin risaupphæð, þá stoppaði hún í NAB netbankanum og eftir nokkur símtöl var mér tjáð að þeir væru búnir að loka á allar sendingar til Íslands."

Ennfremur segir Páll að hinn bankinn sinn, ANZ, bjóði ekki einu sinni lengur upp á Ísland sem valmöguleika fyrir peningasendingar á netbanka sínum. "Það eru jú aðrar leiðir ennþá fyrir hendi svo sem "money order" eða senda bankaávísun þannig að ég kom þessum aurum til skila en allavega náunginn sem átti í erfiðleikum með Danske Bank er ekki einn í heiminum," segir Páll.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×