Viðskipti innlent

Skuldatryggingaálag ríkissjóðs lækkar

Kostnaður við að tryggja skuldabréf ríkissjóðs í evrum til 5 ára hefur lækkað um nærri 1,7% frá miðjum júlí mánuði. Skuldatryggingaálag ríkissjóðs stendur nú í 498 punktum. Við erum þó enn á eftir Kasakstan sem er næst fyrir ofan Ísland með 366 punkta álag.

Minnkandi áhættufælni á mörkuðum á þar væntanlega nokkurn hluta að máli, en þó virðast fréttir af ESB-umsókn Íslands og nú síðast af væntu eignarhaldi bankanna einnig leika þar hlutverk. Þetta kemur fram í morgunkorni Íslandsbanka.

Nú stendur 5 ára skuldatryggingaálag á ríkissjóð í um 500 punktum, sem samsvarar því að reiða þurfi fram um 5,0% af nafnverði skuldabréfs til að tryggja eiganda þess gegn greiðslufalli næstu 5 árin.

Lækkun skuldatryggingaálags á ríkisjóðs er raunar langt í frá einsdæmi, enda hefur áhættufælni farið minnkandi á mörkuðum undanfarna daga.

ITRAXX Europe-vísitalan, sem vegur saman skuldatryggingaálag margra helstu fyrirtækja í Evrópu, hefur þannig lækkað um 0,2% frá miðjum júlí mánuði.

Hlutfallslega er lækkun íslenska álagsins aðeins meiri en fyrrnefndrar vísitölu þannig að uppbyggingastarf í íslensku efnahagslífi virðist hafa haft sitt að segja um þessa þróun.



Álagið er enn afar hátt


Enn er skuldatryggingaálag á ríkissjóð Íslands þó það hæsta meðal þróaðra ríkja í Evrópu, en Írland kemur þar næst á eftir með 143 punkta álag.

Af nýmarkaðsríkjum í Evrópu er Úkraína með langhæsta álagið, 1.242 punkta, og þar á eftir kemur Lettland með 601 punkta álag. Kasakstan siglir svo í kjölfar Íslands með 366 punkta álag og þarnæst er Litháen með 358 punkta álag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×