Viðskipti innlent

Samruni Árvakurs og Þórsmerkur samþykktur

Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt samruna Árvakur og Þórsmerkur ehf. sem nýlega festi kaup á Árvakri. Í úrskurði Samkeppniseftirlitsins segir að eftirlitið telur að ekki séu forsendur til að aðhafast vegna samrunans á grundvelli 17. gr. samkeppnislaga.

Á vefsíðu eftirlitsins segir að þann 1. apríl sl. barst Samkeppniseftirlitinu styttri tilkynning vegna yfirtöku Þórsmerkur ehf. á Árvakri hf. í samræmi við ákvæði samkeppnislaga. Fullnægði tilkynningin skilyrðum samkeppnislaga og reglna Samkeppniseftirlitsins um tilkynningu og málsmeðferð í samrunamálum en félögum sem ekki starfa á sömu mörkuðum.

Starfsemi Þórsmerkur felst í rekstri eignarhaldsfélaga og er tilgangur félagsins samkvæmt upplýsingum í hlutafélagaskrá þátttaka í hvers konar atvinnurekstri, nýsköpun og þróunarstarfi, efling íslensks atvinnulífs, rekstur fasteigna, lánastarfsemi og önnur skyld starfsemi. Árvakur er útgáfufélag Morgunblaðsins og er útgáfa þess eina starfsemi félagsins. Fyrirtækin starfa því ekki á sama markaði.

Í samrunaskrá kemur fram að með kaupsamningi, dags. 24. febrúar 2009, hafi Þórsmörk, fyrir milligöngu Íslandsbanka hf., skrifað sig fyrir nýju hlutafé í Árvakri með það að markmiði að eignast 100% af öllu útgefnu hlutafé félagsins með nánari skilmálum og fyrirvörum sem settir voru fram í samningum.

Samkeppniseftirlitið telur að í framangreindum gerningi felist samruni í skilningi 17. gr. samkeppnislaga en samruni telst hafa átt sér stað þegar breyting verður á yfirráðum til frambúðar þegar fyrirtæki tekur yfir annað fyrirtæki.

Eigendur Þórsmerkur starfa ekki á sömu mörkuðum og Árvakur. Þó skal tekið fram að eigandi Laugarholts ehf., Þorgeir Baldursson, sem er einn af hluthöfum Þórsmerkur, hefur einnig yfirráð yfir Kvos ehf., sem er eignarhaldsfélag Prentsmiðjunnar Odda hf.

Þrátt fyrir að Prentsmiðjan Oddi hf. starfi á tengdum markaði dagblaðaprentunar hafa samkeppnisyfirvöld komist að því í fyrri málum sínum að dagblaðaprentun tilheyri sérstökum markaði.

Þá skiptir einnig máli í þessu tilliti að ekkert hefur komið fram í málinu sem bendir til þess að Laugarholt ehf. hafi yfirráð yfir Þórsmörk enda mun félagið einungis eiga lítinn eignarhlut í Þórsmörk.

Að ofangreindu virtu telur Samkeppniseftirlitið að ekki séu forsendur til að aðhafast vegna samrunans.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×