Skoðun

Skuldbreyting heimilanna

Stjórnvöldum hefur loksins skilist að almenningur lætur ekki lengur bjóða sér samtryggingu fjármálakerfisins og fyrirskipuðu breytingar á stjórn nýju ríkisbankanna. Betra seint en aldrei. Stjórnmálamennirnir eru samt áfram fastir í gamaldags samtryggingarhugarfari þar sem þeir skipuðu bankaráðin pólitískt en ekki á faglegum grunni.

Því miður bíða okkar erfiðir tímar sem geta leikið heimili og fyrirtæki grátt. Verðbólga hækkar skuldir í gegnum verðtryggð lán og gengisfall krónunnar veldur hækkun á afborgunum erlendra lána. Við þetta bætist að tekjur launafólks fara lækkandi. Af þessu leiðir að margir munu ekki geta staðið við skuldbindingar. Þess vegna þarf að lækka skuldir eða greiðslubyrði.

Bjóða þarf upp á greiðsluaðlögun þannig að afborganir af húsnæðislánum fari ekki upp fyrir tiltekið hlutfall heildartekna, t.d. 20-30%. Hluti af skuldunum er þá í skilum en almenningi er jafnframt gert kleift að standa undir rekstri heimila sinna. Sá hluti skuldanna, sem ekki er greitt af, verði frystur.

Ríkisstjórnin verður að tryggja að bankar og lífeyrissjóðir veiti svikalaust sömu aðstoð vegna greiðsluerfiðleika og Íbúðalánasjóður. Þessum tilmælum hefur ekki verið sinnt og þarf því væntanlega að hnykkja á því í lögum. Greiðsluerfiðleikaaðstoð Íbúðalánasjóðs felst í því að lán eru fryst til allt að þriggja ára, lánstíminn lengdur og vanskil færð í skuldabréf.

Loks verður að útfæra leið til skuldbreytingar á almennum húsnæðislánum þegar allar forsendur liggja fyrir, svo sem hvernig farið er með gjaldeyrislán, hvernig efnahagsreikningur nýju bankanna muni líta út og þar með styrkur þeirra og niðurstaða liggur fyrir um athugun Seðlabankans á áhrifum efnahagshrunsins á heimilin. Stjórnvöld verða að lýsa yfir vilja til að afskrifa hluta af húsnæðislánum þeirra sem verst verða staddir þegar rykið sest. Annars er hætta á að fjölskyldur missi heimili sín og aleigu til banka og lífeyrissjóða. Gleymum því ekki að þessir sömu bankar og lífeyrissjóðir eru eign fólksins í landinu. Höfundur er bæjarritari í Kópavogi og frambjóðandi til formanns Framsóknarflokksins.






Skoðun

Sjá meira


×