Viðskipti innlent

Frekari kaupmáttarskeriðing framundan næstu misserin

Nú hefur kaupmáttur launa ekki verið lægri síðan í árslok 2002 og reikna má með enn frekari kaupmáttarskerðingu næstu misseri. Ljóst er að samningsstaða flestra launþega er nokkuð veik og reikna má með að enn fleiri komi til með að sæta beinum nafnlaunalækkunum.

Má hér nefna áform ríkisstjórnarinnar að lækka laun þeirra ríkisstarfsmanna sem eru með laun umfram 400 þúsund krónur á mánuði.

Greining Íslandsbanka fjallar um málið í Morgunkorni sínu. Þar segir að á sama tíma mun verðbólgan verða áfram talsverð þó að hún hjaðni nokkuð hratt á næstunni, en við gerum ráð fyrir að verðbólga verði ríflega 6% í lok þessa árs.

Jafnframt má reikna með að aðhaldsaðgerðir í ríkisfjármálum og þær skatthækkanir sem framundan eru komi svo til með að skerða enn frekar ráðstöfunartekjur heimilanna. Reikna má með að kaupmáttur taki ekki að aukast á ný fyrr en í fyrsta lagi á seinni hluta næsta árs.

Í september hækkuðu laun um 0,3% frá fyrri mánuði samkvæmt launavísitölu Hagstofunnar sem birt var nú í morgun. Í takt við það árferði sem hér hefur ríkt hafa launahækkanir síðustu mánaða verið afar litlar og sér í lagi ef tekið er mið af því sem áður var þegar atvinnumarkaðurinn einkenndist af mikilli þenslu og launaskriði. Síðastliðna tólf mánuði hafa laun einungis hækkað um 1,9%, en svo lítil hefur hækkun launa milli ára ekki verið síðan í ársbyrjun 1997.

Frá því að kaupmáttur var hér mestur í upphafi árs 2008 hefur hann rýrnað um 12,4%, en hann hefur nú rýrnað samfellt síðastliðna 20 mánuði sé tekið mið af 12 mánaða breytingu hans.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×