Skoðun

11 milljarðar í ný hjúkrunarheimili

Magnús Orri Schram skrifar

Ríkisstjórnin hefur samþykkt að stefna að byggingu nýrra hjúkrunarheimila með 361 rými á árunum 2010 til 2012. Verkefnið kemur á góðum tíma fyrir byggingariðnað á krepputíma og hefur í för með sér verulega breytingu á aðstæðum aldraðra.

Á næstu vikum verða lögð fram lagafrumvörp sem annars vegar heimila Íbúðalánasjóði að lána til þessara framkvæmda og hins vegar framkvæmdasjóði aldraðra að taka þátt í rekstrar- og leigukostnaði heimilanna þangað til ríkið getur tekið á sig þær skuldbindingar árið 2014. Þannig verði ráðist í framkvæmdir, án aukinna skuldbindinga fyrir stjórnvöld á viðkvæmasta tímanum fyrir ríkissjóð, þ.e. til 2014.

Ráðist verður í byggingu hjúkrunarheimila á eftirtöldum stöðum: Akureyri, Borgarbyggð, Fljótsdalshéraði, Garðabæ, Hafnarfirði, Kópavogi, Reykjanesbæ, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesi. Alls verða byggð 361 rými, 200 þeirra munu leysa af hólmi tvíbýlisrými, svo að hrein fjölgun er upp á 161 rými.

Næstu skref félags- og tryggingamálaráðherra eru að leita samninga við sveitarfélög með það að markmiði að framkvæmdir við nýbyggingar geti hafist sem fyrst.

Hér er á ferð enn eitt merkið um jákvæða þróun mála hér á landi síðustu misserin. Samningar um tilhögun bankastarfsemi, betri endurheimtur úr þrotabúi Landsbankans, minni vöxtur atvinnuleysis en áður var spáð og fjölmörg áhugaverð verkefni einkaaðila, sýnir að margt er að falla með okkur um þessar mundir.

Auk þess er uppbygging háskólasjúkrahúss og Búðarhálsvirkjun í góðum farvegi hjá lífeyrissjóðunum og stjórnkerfi. Þessi tillaga ráðherra um ellefu milljarða innspýtingu í byggingargeirann, sem léttir á atvinnuleysi meðal iðnaðarmanna og fjölgar hjúkrunarrýmum umtalsvert, er gott skref í rétta átt. Það eru erfiðir tímar og vissulega mætti margt betur fara á ýmsum sviðum. Að því leyti eru stjórnvöld ekki stikkfrí né hafin yfir gagnrýni. En látum hins vegar ekki bölmóðinn ná tökum á umræðunni, heldur tökumst á við verkefnin með jákvæðni að vopni. Þannig náum við miklu lengra.

Höfundur er alþingismaður.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.