Viðskipti innlent

Daníel og Stefnir neita sök í Kaupþingsmáli

Daníel Þórðarson og Stefnir Ingi Agnarsson, sem unnu hjá Kaupþingi, neituðu báðir sök við aðalmeðferð máls Ríkislögreglustjóra gegn þeim.

Þeir eru ákærðir fyrir að hafa sett inn kauptilboð í skuldabréfaflokk Exista sex sinnum, í janúar og febrúar í fyrra; skömmu fyrir lokun markaða, þannig að tilboðin hefðu áhrif á dagslokagengi. Með þessu telur ákæruvaldið að þeir hafi búið til falska eftirspurn auk þess sem verð bréfa hafi verið misvísasndi.

Daníel var sjóðsstjórnandi hjá Kaupþingi og Stefnir Ingi var verðbréfamiðlari. Stefnir bar fyrir dómi í morgun, að Daníel hefði tekið ákvarðanir um viðskipti en þær hefðu ekki verið teknar í sameiningu.

Við aðalmeðferðina í morgun voru meðal annars lögð fram gögn úr símtölum sem þeir áttu vegna viðskiptanna og tölvubréf.

Verði mennirnir sakfelldir þá geta þeir búist við fangelsi, allt að sex árum samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti.

Málið er eitt fyrsta sakamálið vegna brota í aðdraganda bankahrunsins sem hefur ratað fyrir héraðsdóm. Töluverð umræða hefur verið um að í undanfara bankahrunsins, hafi verðbréfamiðlarar reynt að halda gengi bréfa í stóru bönkunum þremur og öðrum félögum uppi, með svipuðum aðferðum og hér um ræðir.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×