Viðskipti innlent

Lárus hættir í skilanefnd Landsbankans

Lárus Finnbogason hefur látið af störfum í Skilanefnd Landsbanka Íslands hf. að eigin ósk að því er kemur fram í tilkynningu frá skilanefndinni. Lárus hefur um tæplega níu mánaða skeið gegnt formennsku í nefndinni.

„Ástæður úrsagnar minnar úr Skilanefndinni eru eingöngu persónulegs eðlis," segir Lárus. „Frá fyrsta degi hefur mikið álag fylgt starfinu, sem hefur gert það að verkum að ég hef ekki getað sinnt sem skyldi margvíslegum verkefnum hjá Deloitte, þar sem ég er meðeigandi. Ég mun nú hverfa þangað til starfa."

„Ég tel að rekstur bankans, sem byggist að miklu leyti á mjög hæfu og reynslumiklu starfsfólki, sé nú í góðum farvegi, þótt gríðarlega mikilvægt langtímastarf sé enn óunnið. Nýlega tók Slitastjórn til starfa, sem annast ýmis verkefni tengd innköllun krafna, úrlausn þeirra og úthlutun úr búinu, sem léttir að því leyti störf Skilanefndar. Í þessu ljósi tel ég að úrsögn mín úr nefndinni eigi ekki að trufla starfsemina svo neinu nemi, þótt breytingar hafi alltaf einhver áhrif. Nú eru því góð tímamót fyrir mig að snúa til annarra starfa," segir Lárus ennfremur.

Lárus lætur af störfum nú um mánaðamótin og hefur tilkynnt það til Fjármálaeftirlitsins.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×