Viðskipti innlent

Lánaði sér sjálfum sama dag og eignir voru kyrrsettar

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Landsbankinn lánaði milljarða króna til hlutabréfakaupa í sjálfum sér, sama dag og eignir hans voru kyrrsettar með leynd, þriðja október í fyrra. Ráðamenn fullyrtu tveimur dögum síðar að ekki væri þörf á aðgerðum vegna bankanna.

Morgunblaðið greinir frá því í dag að breska fjármálaeftirlitið hafi kyrrsett eignir Landsbankans með leynd föstudaginn 3. október 2008. Þetta er þremur dögum áður en neyðarlögin voru sett á Íslandi og fimm dögum áður en Bretar beittu hryðjuverkalögunum gegn Landsbankanum og Seðlabankanum. Þessa sömu helgi var almenningi á Íslandi talin trú um að ekki væri þörf á sérstökum aðgerðum fyrir íslenskt bankakerfi.

Sama dag og þessar aðgerðir breska fjármálaeftirlitsins stóðu yfir í Lundúnum hinn 3. október var Landsbankinn heima í Reykjavík að lána Imon ehf., eignarhaldsfélagi Magnúsar Ármann, stórar upphæðir til þess að kaupa hlutabréf í bankanum, en heildarumfang viðskiptanna var um fimm milljarðar króna. Velta má fyrir sér hver ábyrgð stjórnenda bankans var með að heimila veitingu slíks láns, þ.e að veita milljarða króna lán til hlutabréfakaupa í Landsbankanum á sama tíma og verið var að kyrrsetja eignir hans vegna erfiðrar lausafjárstöðu. Má í raun segja að stjórnendur bankans hafi gefið grænt ljós á lán sem yfirgnæfandi líkur voru á að færi forgörðum.

Eftir viðskipti föstudagsins 3. október 2008 var Imon ehf. orðinn fjórði stærsti hluthafi Landsbankans með 4% hlut. Sem kunnugt er fór FME ofan í saumana á þessum viðskiptum og lauk þeirri rannsókn með kæru til sérstaks saksóknara vegna gruns um markaðsmisnotkun. Nú hefur tugur manna verið yfirheyrður í tengslum við rannsóknina og bæði Magnús Ármann og Sigurjón Árnason hafa stöðu grunaðra. Ekki náðist í dag í þá Sigurjón og Halldór J. Kristjánsson, fyrrverandi bankastjóra, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×