Viðskipti innlent

Peningastefnunefndin var einhuga

Svein Harald Øygard, seðlabankastjóri, er formaður peningastefnunefndar bankans.
Svein Harald Øygard, seðlabankastjóri, er formaður peningastefnunefndar bankans. MYND/Anton Brink
Peningastefnunefnd Seðlabankans var einhuga um að fara sér tiltölulega hægt í upphafi vaxtalækkunarferlisins og lækka stýrivexti úr 18% í 17% 19. mars. Svein Harald Øygard, seðlabankastjóri, bauð öðrum meðlimum peningastefnunefndarinnar að kjósa um tillöguna og samþykkti nefndin hana einhuga. Næsti vaxtaákvörðunarfundur verður 8. apríl.

Peningastefnunefndin var sammála um að hægfara skref væru réttlætanleg vegna þeirrar óvissu sem ríkti um samspil vaxta og gengis og viðkvæms efnahags fyrirtækja, heimila og banka. Einnig var bent á að óvenju mikil óvissa ríkti um horfurnar. Þetta kemur fram í fundargerð peningastefnunefndarinnar en hún var birt á vef Seðlabankans í kvöld.

Nefndin lagði áherslu á að nauðsynlegur þáttur í þeirri viðleitni að endurreisa þjóðarbúskapinn væri að leggja grunn að heilbrigðu fjármálakerfi. „Hún taldi mikilvægt að „nýju" og „gömlu" bankarnir yrðu endurskipulagðir hratt og vel. Nefndin áleit einnig mikilvægt að bankarnir gerðu ráðstafanir til að styrkja eiginfjárgrunn sinn með stuðningi frá kröfuhöfum, eigendum og stjórnvöldum. Það bæri að gera þannig að ríkið taki ekki á sig tap einkageirans vegna bankakreppunnar umfram það sem orðið er," segir í fundargerðinni.

Formaður peningastefnunefndarinnar er Svein Harald Øygard, Seðlabankastjóri og fulltrúar Seðlabanka Íslands í nefndinni eru auk hans Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri og Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands. Auk þeirra eiga Anne Sibert, Dr. í hagfræði og prófessor við Birkbeck College, University of London, Gylfi Zoega, Dr. í hagfræði og prófessor við Háskóla Íslands einnig sæti í nefndinni.

Fundargerð peningastefnunefndar bankans er hægt að lesa hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×