Erlent

Edward Kennedy er látinn

Bandaríski Öldungadeildarþingmaðurinn Edward Kennedy er látinn, 77 ára að aldri. Edward háði harða baráttu við krabbameinsæxli í heila sem að lokum dró hann til dauða. Hann var bróðir forsetans fyrrverandi, John F. Kennedy og var kjörinn í öldungadeildina árið 1962 þar sem hann tók við af bróður sínum sem hætti til þess að gerast forseti.

Edward náði síðan endurkjöri sjö sinnum. Stjórnmálaskýrendur segja að Edward hafi verið einn áhrifamesti öldungadeildarþingmaðurinn úr röðum Demókrata og var hann ákafur stuðningsmaður Baracks Obama á leið hans í forsetastól. Edward er sá eini af fjórum bræðrum sem deyr náttúrulegum dauðdaga. Joseph Kennedy lést í Seinni heimsstyrjöldinni, Forsetinn John var myrtur og Bobby hlut sömu örlög þegar hann barðist fyrir forsetakjöri.

Edward hafði einnig í hyggju að sækjast eftir embætti forseta Bandaríkjanna en þau áform fóru út um þúfur árið 1969 þegar hann fékk skilorðsbundinn dóm fyrir að flýja af slysavettvettvangi en í bílslysinu lést kona sem áður hafði verið kosningastjóri Bobbys. Edward var við stýrið og viðurkenndi það síðar, en fyrir vikið voru forsetadraumar hans úr sögunni. Þrátt fyrir þetta hneykslismál reyndi hann fyrir sér einu sinni þegar hann bauð sig fram gegn Jimmy Carter sitjandi forseta í forkosningunum 1979, en laut í lægra haldi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×