Viðskipti innlent

Össur sækir um skráningu á NASDAQ OMX í Kaupmannahöfn

Össur.
Össur.

Stjórn Össurar hf. ákvað í dag að óska eftir að hlutabréf félagsins yrðu skráð í kauphöll NASDAQ OMX í Kaupmannahöfn. Hlutabréf Össurar munu áfram vera skráð í kauphöll NASDAQ OMX á Íslandi, eins þau hafa verið síðan 1999.

Í tilkynningu frá félaginu segir að Skráning í Kaupmannahöfn sé rökrétt skref fyrir félagið og veiti aðgang að alþjóðlegum fjárfestum.

Skráningarreglur og aðrar lagalegar skyldur eru svipaðar í Danmörku og á Íslandi þar sem að báðar kauphallirnar tilheyra NASDAQ OMX samstæðunni.

Gert er ráð fyrir að skráningin verði samþykkt í næstu viku. Nordea Bank mun vera umsjónaraðili útgáfunnar í Danmörku. Nánari upplýsingar verða veittar þegar skráningin hefur verið samþykkt.

Í framhaldi af skráningunni íhugar stjórn félagsins lítilsháttar hlutafjáraukningu, eða sem nemur 5-7% af heildarhlutafénu, til þess að auka viðskipti með bréf félagsins.

Komi til slíkrar aukningar munu bréfin verða seld til fagfjárfesta og hefur Össur ráðið Nordea Markets sem ráðgjafa vegna þessa.

Viðskipti með íslenska fjármálagerninga eru háð gjaldeyrisreglum Seðlabanka Íslands. Erlendum aðilum er frjálst að eiga viðskipti með bréf félagsins í Danmörku og innlendum aðilum er frjálst að eiga viðskipti með bréfin á Íslandi






Fleiri fréttir

Sjá meira


×