Viðskipti innlent

Yfir 12 þúsund kröfur í þrotabú Landsbankans

Bretar og Hollendingar fyrir hönd 350 þúsund innistæðueigenda gera rúmlega tólf hundruð milljarða króna kröfu í þrotabú Landsbankans. 600 starfsmenn gamla bankans gera launakröfur upp á hátt í fimm milljarða.

Listi yfir lýstar kröfur á hendur Landsbankanum var birtur kröfuhöfum í dag. Slitastjórn bankans hefur tekið afstöðu til hluta krafnanna. Hér er um að ræða kröfur í móðurfélagið og útibú bankans, en dótturfélög eru gerð upp sérstaklega.

Rúmlega 12 þúsund kröfur eru gerðar í þrotabú bankans. Bretar og Hollendingar eru formlega taldir sem tveir kröfuhafar en að baki þeim eru rúmlega 350 þúsund einstaklingar - innlánseigendur Icesave reikninganna. Íslenski innistæðutryggingasjóðurinn mun taka yfir kröfu Breta og Hollendinga þegar og ef Icesave samningarnir verða samþykktir á þingi.

Að sögn Páls Benediktssonar, upplýsingafulltrúa skilanefndar bankans, eru samþykktar forgangskröfur aðallega tilkomnar vegna Icesave en þær nema um tólf hundruð og sjötíu milljörðum króna. Þá eru launakröfur 4,6 milljarðar, samkvæmt heimildum. Launakröfur eru forgangskröfur samkvæmt íslenskum lögum.

Á sjötta hundrað starfsmenn gera launakröfu og er meðal launakrafan því rúm 7,5 milljón króna. Slitastjórn Landsbankans hefur ekki tekið afstöðu til allra launakrafna.

Icesave reikningarnir gera það að verkum að gjaldþrot Landsbankans er umfangsmeira en hinna bankanna, enda þótt kröfur í þrotabú hinna bankanna séu jafnvel hærri.

Búist er við að um 87-89% fáist upp í forgangskröfurnar - launakröfur og Icesave. Því er ljóst að ekkert mun fást upp í almennar kröfur sem nema væntanlega þúsundum milljarða.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×