Viðskipti innlent

Orkuveitan ætlar að framkvæma fyrir 18 milljarða

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Orkuveita Reykjavíkur.
Orkuveita Reykjavíkur.
Orkuveita Reykjavíkur mun standa að framkvæmdum fyrir 18 milljarða króna á næsta ári, samkvæmt fjárhagsáætlun fyrirtækisins. Fjárhagsáæltunin var samþykkt á fundi stjórnar OR í dag.

Helstu framkvæmdirnar eru eftirfarandi:



  • Uppbygging nýrrar hitaveitu frá Hellisheiðarvirkjun, sem tekin verður í notkun haustið 2010.
  • Uppbygging 5. áfanga Hellisheiðarvirkjunar, þar sem framleiðsla á 90 MW rafafls hefst síðla árs 2011.
  • Fráveituframkvæmdir á Vesturlandi þar sem ástand skolpmála mun komast í sama horf og á höfuðborgarsvæðinu á næstu misserum.



Stjórnendur Orkuveitunnar telja að fyrirtækið verði stærsti einstaki framkvæmdaaðilinn hér á landi á næsta ári. Stórt skref hafi verið stigið í fjármögnun framkvæmdanna þegar skrifað var undir fjármögnunarsamning við Evrópska fjárfestingabankann 20. nóvember síðastliðinn. Samningurinn hljóði upp á 170 milljónir evra, eða sem samsvari 31 milljarði króna. Lánið hafi verið veitt eftir ýtarlega skoðun áhættugreiningardeildar bankans á fjárhag og rekstrarhorfum Orkuveitu Reykjavíkur.

Orkuveitan telur að aðhaldsaðgerðir sem starfsfólk fyrirtækisins hafi ráðist í fyrr á þessu ári muni skila um 250 milljóna króna sparnaði á þessu ári, 400 milljóna króna sparnaði á árinu 2010 og hluti aðgerðanna sé til frambúðar. Þá hafi verið gripið til almennrar lækkunar launa sem hafi verið hærri en 300 þúsund krónur á mánuði og hlutfallslega meiri skerðing eftir því sem launin voru hærri.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×