Erlent

Páfi gerist listhneigður

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Benedikt páfi.
Benedikt páfi.

Benedikt páfi sagði listamönnum heimsins um helgina að hann vildi gjarnan blása lífi í vináttu kirkjunnar og listanna.

Benedikt ávarpaði nokkur hundruð listamenn hvaðanæva úr heiminum í Sixtínsku kapellunni í Vatíkaninu á laugardaginn. Meðal þess sem páfi lét frá sér fara í ávarpinu var sú skoðun hans að fegurðin væri stígurinn til guðdómsins og listamennirnir ættu að umvefja verk sín meiri andagift og skynja þannig tengslin við almættið. Vafalaust hefur Benedikt verið innblásinn af loftskreytingu kapellunnar sem Michelangelo málaði á sínum tíma og þykir ákaflega tilkomumikil.

Meðal gesta páfa voru málarar, myndhöggvarar, arkítektar, skáld og leikstjórar svo eitthvað sé talið til og af nafntoguðum einstaklingum í hópnum má nefna ítalska leikstjórann Ennio Morricone, söngvarann Andrea Bocelli og bandaríska leikarann F. Murray Abraham sem hlaut Óskarsverðlaun fyrir túlkun sína á Salieri í kvikmyndinni Amadeus frá 1985.

Páfi sagðist mjög gjarnan vilja endurreisa og styrkja samband kaþólsku kirkjunnar við heim listanna enda væri trúin næring listarinnar og leið hennar til fullkomnunar. Hér þykir kveða við nýjan tón eftir illindi Vatíkansins og rithöfundarins Dan Brown sem strauk kirkjunnar mönnum heldur betur rangsælis með skáldsögum sínum Da Vinci lyklinum og Englum og djöflum þar sem ýmislegt er sett fram í mótstöðu við hin kaþólsku fræði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×