Viðskipti innlent

Spennandi að sjá þátttökuna í ríkisvíxaútboði á morgun

Í vikunni verður haldið útboð á ríkisvíxlum og líklega einnig á ríkisbréfum. Víxlaútboðið heldur Seðlabankinn á morgun, þriðjudag, kl. 11 og verða boðnir út 4ra mánaða víxlar. Greining Íslandsbanka segir spennandi að sjá hvort innlendir aðilar taki þátt í víxlaútboðinu af jafnmiklum krafti og raunin varð í september.

Í Morgunkorni greiningarinnar segir að Íí útboði septembermánaðar seldi Seðlabankinn fyrir hönd ríkissjóðs víxla fyrir 8,4 milljarða kr. á 8,53% meðalvöxtum. Samkvæmt nýbirtum Markaðsupplýsingum voru innlendir bankar fyrirferðarmestir í septemberútboðinu. Keyptu þeir víxla fyrir 5,1 milljarða kr., verðbréfasjóðir keyptu víxla fyrir 1,1 milljarða kr. en aðrir, þar með talið erlendir fjárfestar, keyptu bréf fyrir 2,2 milljarða kr.

Lítil þátttaka útlendinga í útboðinu er athyglisverð, þar sem í september voru á gjalddaga 20 milljarða kr. af ríkisvíxlum sem útlendingar keyptu alfarið í útboði maímánaðar. Bendir það til þess að stór hluti þessara erlendu kaupenda hafi fært sig í aðra fjárfestingarkosti með lengri líftíma, jafnvel fyrir gjalddaga víxlanna.

Erlendir aðilar gætu sömuleiðis orðið atkvæðalitlir í útboðinu á morgun í ljósi þess að þeir keyptu aðeins 1,2 milljarða kr. af þeim ríkisvíxlum sem eru á gjalddaga þennan mánuðinn. „Verður forvitnilegt að sjá hvort innlendir aðilar taka þátt í útboði morgundagsins af jafn miklu kappi og raunin var í síðasta mánuði, og hvort hækkun millibankavaxta í síðustu viku eftir umtalsverða útgáfu innstæðubréfa hefur áhrif á vaxtastig útboðsins," segir í Morgunkorninu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×