Skoðun

Samkeppnisstaða BSV

Haustið 2008 fór viðskiptafræðideild Háskóla Íslands af stað með viðskiptafræðinám í kvöldskóla. Námið hefur gengið undir nafninu BSV, eða BS-nám með vinnu. Námið er hugsað fyrir þá sem vilja verða sér úti um háskólagráðu í viðskiptafræði en hafa af einhverjum ástæðum ekki möguleika á því að stunda nám í dagskóla. Ástæðurnar geta verið margvíslegar s.s. skuldbindingar er tengjast vinnu eða fjölskyldu.

Þessu námstilboði var afar vel tekið og stunda nú um 70 nemendur námið. Það er ánægjulegt, sérstaklega þegar haft er í huga að samkeppnisstaðan er afleit borin saman við hina svokölluðu einkaháskóla.

Samkeppnisstaða BSV
OLYMPUS DIGITAL CAMERA Auður Hermannsdóttir

Þegar talað er um afleita samkeppnisstöðu í þessu samhengi er átt við þá staðreynd að nám sem þetta flokkast undir svokallaða þjónustukennslu sem háskóladeild er ekki skylt að veita eða sinna. Námið er því ekki fjármagnað af hinu opinbera með svokölluðum þreyttum einingum heldur eru tekin skólagjöld af nemendum til að standa undir kennslu, kynningum og þjónustu við nemendur. Gjaldið fyrir næsta skólaár er kr. 50.000 fyrir hvert námskeið, sem er sambærilegt gjald og HR og Bifröst taka. Það sem er hins vegar undarlegt við fyrirkomulagið er að einkaskólarnir, HR og Bifröst, fá til viðbótar framlag frá hinu opinbera. Sú upphæð bætist þá við þau gjöld sem skólarnir innheimta af nemendum. Miðað við reikniflokk félagsvísinda gætu tekjur einkaskólanna verið 75-85% hærri fyrir hvert námskeið, fyrst og fremst vegna tekna frá hinu opinbera. Það er auðvitað dálítið undarlegt að horfa upp á það að einkaframtakið skuli byggja samkeppnisstöðu sína á slíku framlagi.

Á sama tíma er ekkert sem bendir til þess að nemendur í einkaskólunum fái betri eða meiri þjónustu en nemendur í BSV viðskiptafræðideildar. Kennarar uppfylla allir þær ströngu kröfur sem gerðar eru til kennara í Háskóla Íslands og námið hefur skýra þjónustustefnu og þjónustuviðmið.

Vegna þessa hafa einkaskólarnir mun meira fjármagn til að setja í kynningarstarf og annað sem er líklegt til að draga að nemendur og vekja athygli á náminu. Það má því halda því fram að skattgreiðendur kosti kynningarstarf einkaskólanna í þeim tilgangi að hafa betur í samkeppninni við ríkisháskóla, sem þeir eiga þó sjálfir!

Samkeppnin
1

Á undanförnum misserum hefur nokkuð verið rætt um samkeppni milli háskóla. Það er þá gjarnan gert með jákvæðum formerkjum, þ.e. að með tilkomu samkeppninnar batni starf skólanna. Líklega er eitthvað til í því ef horft er á málið út frá markaðslegu sjónarhorni. Samkeppni getur virkað sem hvati til að standa sig betur. Það sem kemur þó mörgum í Háskóla Íslands spánskt fyrir sjónir er það viðhorf að samkeppnin sé nýtilkomin. Alla tíð hefur verið ákveðin samkeppni milli deilda skólans og nemendur hafa getað farið til útlanda í nám. Aukið val hér heima ætti þó að koma nemendum til góða. Einn mælikvarði á samkeppni er að neytendur hafi raunverulega valkosti. Þannig geti það verið kostur fyrir nemendur að geta valið milli skóla A, B eða C.

Samkeppnin hefur hins vegar á sér margar hliðar og þegar rætt er um samkeppni á skólamarkaði þarf að vera ljóst við hvað er átt. Snýst samkeppnin fyrst og fremst um að laða að sér sem flesta nemendur og fá þannig greitt fyrir sem flestar þreyttar einingar? Eða snýst hún einnig um hæfa kennara, góða kennsluaðstöðu, góða rannsóknaraðstöðu og að geta boðið upp á annan þann búnað og aðstöðu er prýðir góðan háskóla? Snýst hún ekki einnig um að hið opinbera mismuni ekki nemendum?

Ef svo er, þurfa þá ekki að gilda sömu leikreglur fyrir alla sem keppa á markaðinum?




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×