Viðskipti innlent

Nýi Landsbankinn tekur yfir 60% hlutafjár í Teymi

Ingimar Karl Helgason skrifar
Nýi Landsbankinn tekur yfir hátt í sextíu prósent hlutafjár í Teymi, aðrir bankar taka rest. Skuldir félagsins eru vel á fimmta tug milljarða króna. Þar af eru um þrjátíu milljarðar án veðs.

Teymi er móðurfélag margra fyrirtækja. Í þeim hópi eru fjarskiptafyrirtækin Vodafone og Tal og upplýsingatæknifyrirtækin Skýrr, EJS og Kögun.

Skuldastaða félagsins var orðin mjög slæm, að því er fram kemur í frumvarpi til nauðasaminga sem birtist á vef kauphallarinnar í dag. Félagið stendur ekki undir greiðslum, þótt reksturinn sé góður. Skuldir félagsins og ábyrgðir sem það er í, nema samtals tæplega fjörutíu og tveimur og hálfum milljarði króna.

Samkvæmt sömu gögnum kemur fram að um þrjátiu milljarðar þessara skulda séu án veðs. Skuldum fyrir tæplega 29 milljarða króna verður breytt í hlutafé en félagið skuldar áfram á fjórtánda milljarð króna.

Helstu kröfuhafar verða hluthafar í félaginu. Landsbankinn tekur hátt í sextíu prósenta hlut. Straumur, Íslandsbanki og aðrir kröfuhafar minna.

Í eigandahópnum voru félög í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Pálma Haraldssonar, Karls Wernerssonar, Þorsteins M. Jónssonar og Magnúsar Ármanns. Nafnverð hlutafjárins var um þrír milljarðar króna. Það verður núllað út. Óvíst er hversu miklar skuldir voru á bak við hlutafjáreignina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×