Viðskipti innlent

Milljarðarnir skrifast á Björgólf

Björgólfur Guðmundsson
Björgólfur Guðmundsson

Auknar skuldir bankaráðsmanna Landsbankans og félaga tengdra þeim í hálfsársuppgjöri bankans í fyrra eru að nær öllu leyti tilkomnar vegna kaupa Björgólfs Guðmundssonar, formanns bankaráðsins, á helmingshlut Sunds í fjárfestingarfélaginu Gretti fyrir tveimur árum.

Fram kom í Markaðnum í gær að skuldir bankaráðsmanna Landsbankans og félaga tengdra þeim jukust úr 9,9 milljörðum króna árið 2007 í tæpa fimmtíu milljarða í fyrra. Kaup Björgólfs skýra 37 milljarða en gengisáhrif þrjá milljarða króna.

Grettir átti 33 prósent í Eimskipi og rúm 28 prósent í Icelandic Group og færðust skuldbindingar félaganna gagnvart bankanum frá fyrri árum yfir á félög tengd bankaráðsformanninum. Ekki var um nýjar lánveitingar að ræða.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins gekk Björgólfur sjálfur í ábyrgð fyrir skuldbindingum auk þess sem bankinn hafði veð í eignarhlut Björgólfs í Gretti. Grænt ljós var gefið á viðskiptin í bankaráðinu enda talið að þau gætu styrkt félög í eigu Grettis.

Unnið er að innheimtu krafna á hendur bankaráðsmönnum og félögum þeim tengdum. Óvíst er með heimtur þar sem mörg félög tengd bankaráðsmönnum standa illa. „Því miður hefur þróunin verið til verri vegar hjá mörgum,“ sagði einn viðmælenda Fréttablaðsins í gær.- jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×