Viðskipti innlent

Ekkert nýtt að frétta af sölumálum West Ham

Hópur bandarískra fjárfesta með aðsetur í London ætlar að gera tilboð í enska knattspyrnuliðið West Ham United sem er í eigu Straums. Sky Sports greinir frá þessu og segir að fjárfestingafélagið Inter Market ætli sér að bjóða 100 milljónir punda í félagið sem er 50 milljónum meira en nafnarnir David Gold og Sullivan buðu fyrr í mánuðinum. Því boði var hafnað af CB Holding, dótturfélagi Straums. Upplýsingafulltrúi Straums segir ekkert nýtt í stöðunni.

Stjórnarformaður Inter Market er Bandaríkjamaðurinn Jim Bowe og segir Sky að aðrir fjárfestar í hópnum séu allir stuðningsmenn félagsins sem vilji sjá veg þess meiri í framtíðinni.

Georg Andersen, forstöðumaður samskiptasviðs Straums, segir ekkert nýtt í stöðunni. Búið sé að ræða við marga aðila og í raun hafi ekkert breyst. Að sögn Georgs liggur Straumi ekkert á að losa sig við félagið og engin pressa er því á að taka hvaða boði sem er. Georg bendir á að um mjög flókið ferli sé að ræða og því mun möguleg sala taka mjög langan tíma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×