Viðskipti innlent

Nær allir stjórnendur telja aðstæður efnhagslífsins slæmar

Stjórnendur hjá um 95% stærstu fyrirtækja landsins telja núverandi aðstæður í efnahagslífinu vera slæmar (37%) eða mjög slæmar (58%), um 5% telja þær hvorki góðar né slæmar, en ekkert þeirra fyrirtækja sem svöruðu könnuninni telja aðstæður hins vegar vera góðar.

Þetta kemur fram í yfirliti sem Samtök atvinnulífsins hafa birt á heimasíðu sinni. Þar segir að þessi niðurstaða sé ámóta afleit og fram kom í sambærilegri könnun í desember en mun verri en fram hefur komið í fyrri reglubundnum könnunum um sama efni eða allt frá árinu 2002.

Framangreindar niðurstöður sem byggja á stöðu og framtíðarhorfum hjá 500 stærstu fyrirtækjum landsins bera með sér margvísleg einkenni banka- og gjaldmiðilskreppunnar. Eins og í samsvarandi könnun í desember eru núverandi aðstæður í atvinnulífinu afleitar.

Á heimsíðunni segir að stjórnendur eiga almennt ekki von á að breyting verði til batnaðar á næstu sex mánuðum en ívið meiri bjartsýni kemur fram þegar horft er ár fram í tímann. Öll einkenni eftirspurnar- og verðbólguþrýstings eru horfin úr hagkerfinu.

Þegar horft er sex mánuði fram í tímann búast um 29% fyrirtækjanna við að aðstæður verði þá nokkuð betri, um 33% telja að þær verði verri og um 38% búast þá við að aðstæður verði óbreyttar frá því sem nú er.

Aukinnar bjartsýni gætir þegar horft er tólf mánuði fram í tímann, en þá býst meirihluti fyrirtækjanna eða 59% við að aðstæður verði betri, um 18% að þær verði verri en um 22% vænta óbreyttra aðstæðna.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×