Viðskipti innlent

Feðgarnir í Fjarðarkaupum menn ársins

Mynd/GVA
Feðgarnir í Fjarðarkaupum eru menn ársins 2009 í íslensku atvinnulífi, að mati Frjálsrar verslunar. Þetta eru þeir Sigurbergur Sveinsson og synir hans Sveinn og Gísli Þór.

„Þeir hafa ekki farið í útrás, hvorki til höfuðborgarinnar né til útlanda. Fjarðarkaup voru stofnað fyrir nær 37 árum sem fyrsta lágvöruverðsverslun á Íslandi," segir í tilkynningu frá tímaritinu.

Í mati sínu lagði dómnefnd Frjálsrar verslunar til grundvallar frumkvöðlastarf á sviði lágvöruverðsverslunar á Íslandi, langan og farsælan feril, hófsemi, dugnað og útsjónarsemi sem gert hefur Fjarðarkaup að stöndugu og framúrskarandi fyrirtæki, að fram kemur í tilkynningunni.

Þar segir að feðgarnir hafi lagt áherslu á að reka trausta og góða matvöruverslun þar sem álagning sé lág en þó þannig að allar vörur séu látnar standa undir sér í stað þess að gefa með sumum vörum en taka það aftur inn á öðrum.

„Fjarðarkaup skulda ekki krónu í langtímalánum og búa að því að þar hefur verið vel haldið á og hagnaði haldið inni í fyrirtækinu til að styrkja stoðir þess," segir í tilkynningu Frjálsrar verslunar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×