Erlent

Finninn fljúgandi gripinn á jóladag

Með eiginkonunni Mynd frá árinu 2004. Matti Nykanen og kona hans Merja Tapola í dómhúsinu í Tampere í Finnlandi. Nykanen sem er 46 ára er nú í haldi lögreglu grunaður um að hafa reynt að ráða konu sinni bana. Fréttablaðið/Ap
Með eiginkonunni Mynd frá árinu 2004. Matti Nykanen og kona hans Merja Tapola í dómhúsinu í Tampere í Finnlandi. Nykanen sem er 46 ára er nú í haldi lögreglu grunaður um að hafa reynt að ráða konu sinni bana. Fréttablaðið/Ap

Matti Nykanen, fjórfaldur Ólympíumeistari í skíðastökki, er í haldi lögreglu í Finnlandi grunaður um að hafa reynt að drepa konu sína á jóladag.

Nykanen, sem er 46 ára gamall, er einn af helstu íþróttahetjum Finna og var á hátindi frægðar sinnar þekktur undir heitinu „Finninn fljúgandi“. Hann var handtekinn eftir að hafa ráðist á konu sína, Mervi Tapola, og veitt henni áverka bæði á höfði og hendi.

Samkvæmt fjölmiðlum ytra er konan sögð hafa flúið heimili þeirra og kallað til lögreglu hjá nágranna.

Nykanen naut mikilla vinsælda heima fyrir en hann hlaut þrenn gullverðlaun á vetrarólympíuleikunum í Calgary árið 1988 og bæði gull og silfur á Ólympíuleikunum í Sarajevo árið 1984. Breska ríkisútvarpið BBC greinir einnig frá því að hann hafi unnið fimm gullverðlaun á heimsmeistaramótum og þrettán slík verðlaun á mótum heima fyrir.

Eftir að Nykanen hætti keppni á tíunda áratug síðustu aldar hefur líf hans verið markað persónulegum vandamálum. Hann hefur fengið á sig dóma vegna árásarmála og mun hafa átt í vandræðum vegna ofneyslu áfengis. Frá því að íþróttaferlinum lauk hefur Nykanen starfað sem tónlistarmaður og fatafella. - óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×