Innlent

„Ég á fyrir Diet Coke, það er nóg“

Skiptastjóri Baugs vill rifta samningum um sölu á Högum, frá Baugi til Gaums. Salan á Högum gengur þó ekki sjálfkrafa til baka þrátt fyrir þetta.  Málið snýst um kröfu þrotabúsins á hendur Gaumi, félagi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, og Kaupþingi, um 5 milljarða króna vegna uppgreiðslu á lánum með söluandvirði Haga. Ekki er fótur fyrir kröfunni segir Jón Ásgeir sem segir að sala á Högum og uppgreiðsla lána hafi verið í gerð fullu samráði við kröfuhafa.

Skiptastjórar þrotabús Baugs héldu fund með kröfuhöfum í dag. Á fundinum var tilkynnt að viðbótarkrafa hafi verið send á Gaum og Kaupþing vegna viðskiptanna með Haga. Kaupþing lánaði Gaumi á sínum tíma 30 milljarða til að kaupa Haga af Baugi, en öll fyrirtækin voru þá í eigu Jóns Ásgeirs og fjölskyldu. Eftir að búið var að losa öll veð var afgangurinn af láninu notaður til uppgreiðslu á öðrum lánum hjá lánveitandum. Skiptastjórar telja að aðrir kröfuhafar hafi átt ríkari rétt.

„Það var selt út úr Baugi með góðu samþykki við alla lánadrottna. Þeim var kynnt hvað vera að gerast og það á ekki að vera neitt óljóst í þessu," segir Jón Ásgeir.

Samkvæmt heimildum fréttastofu nemur krafan um 5 milljörðum.

Jón Ásgeir segir ennfremur að kröfunni verði mótmælt og hann telji að enginn fótur sé fyrir henni. Aðspurður hvort hægt verði að útvega fé ef greiða þurfi kröfuna segir Jón Ásgeir að það verði að skoðast á þeim tímapunkti ef til þess komi, hann hafi þó ekki trú á því að svo verði.

Hvernig stendur Gaumur?

„Ágætlega. Það sem skiptir mestu máli er að helsta eign félagsins, Hagar, standi sig."

Kröfum Gaums og Haga upp á rúmlega 8 milljarða króna var hafnað í þrotabú Baugs. Jón Ásgeir segir lögfræðinga nú vera að fara yfir hvernig unnið verði úr því máli.

Áttu meira en þú skuldar?

„Síðast þegar ég lagði saman."

Hefurðu verið kallaður til yfirheyrslu hjá sérstökum saksóknara?

„Nei."

Hefurðu komið einhverjum fjármunum undan?

„Nei. Það er enginn fjársjóður á Tortola eða einhversstaðar í suðurhöfum."

Hver er staðan þín?

„Mín persónulega staða? Ég á fyrir Diet Coke, það er nóg."











Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×