Viðskipti innlent

Marorka gerir stóran samning við Kongsberg í Noregi

Marorka hefur gert samning við norska fyrirtækið Kongsberg sem hannar og selur stjórnkerfi í skip. Tekjur Marorku munu við þetta aukast á einu ári um 150-350 milljónir sem greiddar eru í evrum.

Fjallað er um málið á vefsíðu Samtaka iðnaðarins. Þar segir að samningurinn sé sá langstærsti sem fyrirtækið hefur gert frá formlegri stofnun þess árið 2002. Í honum felst að orkustjórnunarkerfi Marorku verður bætt við öll stjórnkerfi frá Kongsberg.

„Það birtir sannarlega yfir öllu með svona góðum samningi," segir Jón Ágúst Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Marorku. Það hafi tekið um fjóra mánuði að vinna að samningnum, sem sé hluti af því ferðalagi sem fyrirtækið sé á. „Þetta er mjög jákvætt og gefur okkur möguleika á að vaxa hraðar."

Marorka bætti við sig tveimur starfsmönnum í byrjun ársins eftir tilkomu Starfsorku, átaksverkefnis sem miðar að því að fjölga starfsmönnum sprota- og nýsköpunarfyrirtækja. Áætlað er að bæta við þremur starfsmönnum til viðbótar í haust, en þá verður starfsmannafjöldi Marorku kominn í 21. Þess má geta að hjá Kongsberg starfa rúmlega 3.300 starfsmenn í 25 löndum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×