Viðskipti innlent

Týndu Glitnisbréfin hækka um 7,5 milljarða eftir könnun

Skuldabréf þau sem týndust í bókhaldi Glitnis hafa hækkað í verði um 41 milljón evra eða um 7,5 milljarða kr. við könnun endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte á málinu.

Þetta kemur fram í frétt frá skilanefnd Glitnis. Þar segir að þann 5. nóvember 2009 var greint frá því á fundi með kröfuhöfum Glitnis að við undirbúning á innköllun krafna á bankann hefðu komið fram upplýsingar um ákveðin viðskipti sem hugsanlega gætu aukið skuldir bankans um 752 milljónir evra, eða 139 milljarða kr.

Í kjölfar kröfhafafundarins 5. nóvember 2009 bað skilanefndin Deloitte hf. að fara yfir þessi viðskipti til að upplýsa frekar eðli þeirra og hugsanlegt umfang.

Liður í þessari skoðun Deloitte var að fara yfir alla opna verðbréfalánasamninga og endurhverf verðbréfaviðskipti þar sem Glitnir hafði afhent skuldabréf útgefin af bankanum sjálfum.

Niðurstaða Deloitte var að skuld vegna þessara viðskipta, sem áttu sér stað um það leyti sem bankinn hrundi, gæti numið u.þ.b. 793 milljónum evra (eða um 41 milljón evra hærri upphæð en þær 753 milljónir evra sem tilkynntar voru kröfuhöfum 5. nóvember 2009).

Þegar skuldir Glitnis hafa verið uppfærðar með tilliti til þessara 793 milljóna evra þá nemur þessi viðbót um 5,5% af heildarskuldum Glitnis þann 30. júní eins og þær voru upphaflega gefnar upp þann 31. ágúst 2009.

Núverandi mat skilanefndarinnar er að fara verði með þessar skuldir eins og önnur útgefin skuldabréf sem færð eru í liðnum „Verðbréfaútgáfa og önnur lántaka" í yfirliti yfir eignir og skuldir þann 30. júní 2009.

Vegna takmarkaðs tíma sem gafst til að fara yfir þetta mál er ekki útilokað að endanlega skuldin geti orðið hærri eða lægri en 793 milljónir evra. Endanleg niðurstaða um þennan skuldalið fæst ekki fyrr en kröfulýsingarfrestur er liðinn, en frestur kröfuhafa til að lýsa kröfum í bú Glitnis rennur út 26. nóvember 2009.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×