Viðskipti innlent

Kaupmáttur hefur ekki verið lægri síðan í árslok 2002

Sú kaupmáttarskerðing sem íslenskir launþegar hafa orðið fyrir undanfarin misseri á sér fá fordæmi hér á landi og þarf að fara aftur til byrjunar tíunda áratugar síðustu aldar til þess að finna álíka þróun. Nú hefur kaupmáttur launa ekki verið lægri síðan í árslok 2002 og reikna má með enn frekari kaupmáttarskerðingu næstu misseri.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að á sama tíma og launhækkanir hafa verið litlar hefur verðbólga verið mikil. Hefur kaupmáttur launa nú rýrnað um 12,5% frá því að hann var hér mestur í janúar árið 2008.

Á síðustu tólf mánuðum hefur kaupmáttur minnkað um 4,3% en gera má ráð fyrir að kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna hafi rýrnað enn frekar, þá m.a. vegna þess að atvinnuleysi hefur aukist mikið undanfarið og tekjuskattur hefur hækkað.

Ljóst er að samningsstaða flestra launþega er nokkuð veik og búast má við að enn fleiri komi til með að sæta beinum nafnlaunalækkunum. Á sama tíma mun verðbólgan verða áfram talsverð en þar að auki má reikna með að aðhaldsaðgerðir í ríkisfjármálum og þær skatthækkanir sem framundan eru komi svo til með að skerða enn frekar ráðstöfunartekjur heimilanna. Reikna má með að kaupmáttur taki ekki að aukast á ný fyrr en í fyrsta lagi á seinni hluta næsta árs, að því er segir í Morgunkorninu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×