Skoðun

Skuldastaða Orkuveitu Reykjavíkur

Samkvæmt sex mánaða uppgjöri Orkuveitu Reykjavíkur 2009 skuldar fyrirtækið 227 milljarða króna. Því er rétt að spyrja hvenær urðu þessar skuldir til og hver ber ábyrgð á þeim? Samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2005 voru skuldir OR um 40 milljarðar en það er síðasta heila árið sem R-listinn stjórnaði fyrirtækinu. Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn tóku við stjórn fyrirtækisins eftir kosningar 2006. Séu skuldir fyrirtækisins í lok árs 2005 uppreiknaðar miðað við verðlag í júlí 2009 samsvara þær 55,1 milljarði. Þannig hafa skuldir fyrirtækisins á föstu verðlagi rúmlega fjórfaldast á fjórum árum, sjá línurit 1. Hrun krónunnar hefur vissulega átt þátt í skuldaaukningunni þó það skýri alls ekki 412% hækkun skulda á föstu verðlagi.

VirkjunarhraðiFrá því fyrsta viljayfirlýsingin um álver í Helguvík var undirrituð hafa fulltrúar Samfylkingar í stjórn OR haft áhyggjur af virkjunarhraðanum og áhrifum skuldsetningar á fjárhag OR. Fyrsta viljayfirlýsingin var samþykkt árið 2006 í stjórnarformannstíð Alfreðs Þorsteinssonar, ég hafði þá strax verulegar efasemdir um áhrif framkvæmdanna á fjárhag OR og greiddi því ekki atkvæði með viljayfirlýsingunni, sem studd var af fulltrúum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Í bókun minni við atkvæðagreiðsluna segir m.a. „óskað er eftir að upplýsingum um áhrif hugsanlegra virkjanaframkvæmda á efnahag OR, sérstaklega eiginfjárhlutfall fyrirtækisins til lengri tíma og á meðan á framkvæmdum stendur. Þessi áhrif verði skoðuð í samhengi við önnur fjárfestingaáform fyrirtækisins svo sem lagningu ljósleiðara. Hvar liggja þolmörk fyrirtækisins í fjárfestingu?" Þó lítið hafi verið gefið fyrir þessi varnaðarorð á sínum tíma og fullyrt að afstaðan byggðist á misskilningi sjá menn í dag að betra hefði verið að staldra við. En eins og línurit 2 sýnir hefur eiginfjárhlutfall fallið úr 54,9% í árslok 2005 í 14,1% um mitt ár 2009, þrátt fyrir verulegt endurmat eigna.

Ábyrgðir borgarinnarÁ kjörtímabilinu hafa fulltrúar Samfylkingar í stjórn OR reynt ýmislegt til að forða fyrirtækinu frá þeirri stöðu sem það stendur frammi fyrir í dag. T.d. lagði Dagur B Eggertsson 1. júní 2007 fram svohljóðandi tillögu í stjórn OR: „Kannaðir verði kostir mismunandi leiða við að virkjanir OR vegna samninga um sölu á orku til stóriðju verði sjálfstæðar einingar, standi undir öllum kostnaði þeim tengdum, verði fjármagnaðar með verkefnafjármögnun en án ábyrgðar eigenda." Tillögunni var frestað og hún er enn í frestun. Ef tillagan hefði verið samþykkt og farið í þessa uppskiptingu á þeim tíma væri staða borgarinnar allt önnur í dag, þá stæði borgin ekki í ábyrgðum fyrir 227 milljarða skuldum eins og hún gerir í dag. Þegar tillagan var lögð fram árið 2007 var hún framkvæmanleg, en hún er það varla í dag, þar sem lánveitendur halda dauðahaldi í allar ábyrgðir enda búið að keyra lánshæfismat OR í ruslflokk.

Pólitísk afglöp

Þó mikill þungi í virkjunarframkvæmdum og hrun krónunnar eigi stærstan þátt í alvarlegri skuldastöðu OR bætast við pólitískar gloríur núverandi meirihluta. Bara á þessu ári hefur þeim tekist að glutra fleiri milljörðum út úr rekstri fyrirtækisins, verktökum voru afhentar 800 milljónir umfram samninga. Orkuveitan tapaði minnst 5 milljörðum á viðskiptum með bréf í HS-Orku þegar skúffufyrirtækinu Magma Energy var „seldur" hluturinn ef hægt er að tala um að hlutur hafi verið seldur, þegar 70% eru lánuð með kúluláni til sjö ára á 1% vöxtum. Þessum gjörningi mótmæltum við harðlega.

Eftir að meirihlutinn gekk að þessu tilboði lagði ég til í stjórn OR að kúlulánið, sem er í formi skuldabréfs, yrði selt til að minnka þörf fyrirtækisins fyrir frekari skuldsetningu. En nafnverð skuldabréfsins samsvaraði rúmum 8,4 milljörðum króna við undirritun. Sú tillaga er eins og fleiri tillögur minnihlutans í frestun. Hinsvegar samþykkti meirihlutinn í borgarstjórn sl. þriðjudag 10 milljarða innlenda lántöku með 4,65% verðtryggðum vöxtum til að greiða upp yfirdráttarlán og önnur skammtímalán.

Til að kóróna svo stjórnviskuna krefur borgarstjórinn í Reykjavík fyrirtækið, sem berst í bökkum, um 2 milljarða í arðgreiðslur, sem er þreföldun miðað við arðgreiðslur fyrirtækisins á síðasta ári. Það er ljóst að OR mun ekki mæta því með öðrum hætti en lántökum sem síðan munu, eins og önnur afglöp meirihlutans, skila sér í hækkuðu orkuverði til almennings. Þeim óþægindum verður þó án efa frestað fram yfir sveitarstjórnarkosningar eins og öðrum erfiðum ákvörðunum.

Höfundur er borgarfulltrúi.




Skoðun

Sjá meira


×