Viðskipti innlent

Skuldabyrði kúabænda eykst um 700% milli ára

Mynd: GVA.
Mynd: GVA.
Skuldabyrði kúabænda hefur aukist um 700% milli áranna 2007 og 2008. Skuldabyrði sauðfjárbænda jókst um 319% á sama tíma.

Þetta kemur fram í Bændablaðinu þar sem fjallað er um niðurstöður búreikninga Hagþjónustu landbúnaðarins í birtar voru nýlega. Erna Bjarnadóttir hagfræðingur Bændasamtakanna fjallar um afkomuna hjá kúa- og sauðfjárbúunum á síðasta ári.

Í ljós kemur að kostnaður vegna fjármagnsliða á meðalkúabúi (í kringum 40 kýr) nam 3,9 milljónum kr. árið 2007 en var kominn í 31,4 milljónir kr. árið 2008 sem er tæplega áttföldun á skuldabyrðinni.

„Skýringar á þessu eru þær helstar að búin eru mörg hver fjármögnuð með erlendu lánsfá sem hefur bólgnað út vegna gengisbreytinga auk þess sem háir vextir og verðbólga hafa sitt að segja," segir í Bændablaðinu.

Sem fyrr segir hækkar skuldabyrðin hjá sauðfjárbændum ekki eins mikið eða um 319%. Þar hækka fjármagnsliðirnir úr tæpri milljón kr. upp í rúmar fjórar milljónir kr. Sauðfjárbúin virðast var fjármögnuð í minna mæli en kúabúin með erlendum lánum. Á móti kemur að veltan á þeim er lítil og af litlu að taka til að fást við sveiflur af þessu tagi, að því er segir í Bændablaðinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×