Viðskipti innlent

Niðurstaða héraðsdóms gífurleg vonbrigði

Bankarnir 25 sem kröfðust viðurkenningar á bótaskyldu vegna yfirtöku Fjármálaeftirlitsins á SPRON eru gífurlega vonsviknir yfir niðurstöðu héraðsdóms frá því í dag sem vísaði málinu frá. Kröfuhafarnir eru víðsvegar að úr heiminum, frá Evrópu, Miðausturlöndum og Asíu. Krafan var á heundur Seðlabankans, fjármálaráðuneytisins, Fjármálaeftirlitsins og SPRON og í niðurstöðum dómsins segir að kröfur bankanna 25 hafi ekki verið nægilega vel reifaðar og því var málinu vísað frá dómi.

„Frávísun málsins á tæknilegum forsendum eru mikil vonbrigði," segir í yfirlýsingu frá hópnum og er því bætt við að kröfuhöfum sé brugðið yfir þeirri meðferð sem þeir hafa sætt af hendi íslenskra yfirvalda. Svo virðist sem þeir geti heldur ekki reitt sig á íslenska dómstóla við að fá málum sínum framgengt.

„Kröfuhafarnir trúa því að samræmdar aðgerðir FME, Seðlabankans og íslenskra stjórnvalda hafi orðið til þess að einn af vel metnustu bönkum Íslands hafi farið á hausinn. „Með yfirtöku Nýja Kaupþings á innistæðum viðskiptavina SPRON hafi verið bundinn endi á margra mánaða vinnu við að endurreisn sparisjóðsins." Að lokum segir að kröfuhafarnir íhugi nú kosti sína í málinu.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×