Innlent

Ásta Ragnheiður: „Ég er alltaf á vaktinni“

Ásta Ragnheiður viðurkennir óheppileg ummæli.
Ásta Ragnheiður viðurkennir óheppileg ummæli.

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, sendi frá sér yfirlýsingu í tilefni ummæla sem hún lét falla í þættinum Í bítið á Bylgjunni í morgun. Þar sagðist hún ekki hafa kynnt sér tillögur talsmanns neytanda vegna þess að hún hafði verið í helgarfríi. Vísir sagði síðan frá málinu.

Yfirlýsing Ástu Ragnheiðar er eftirfarandi:

Ég viðurkenni að ummælin í þættinum Í bítið á Bylgjunni í morgun voru óheppileg og en ég get fullvissað fólk um að ég er alltaf á vaktinni, virka daga sem helgidaga. Í félags- og tryggingamálaráðuneytinu er unnið baki brotnu öllum stundum. Ég og samstarfsfólk mitt veigrum okkur ekki við að vinna þegar þess er þörf og ég hef t.d. verið við störf í ráðuneytinu vel flest kvöld og helgar frá því ég tók sæti í ríkisstjórn.

Erindi talsmanns neytanda, dags. 27. apríl sl., var sent forsætisráðherra til afgreiðslu, - en mér og öðrum ráðherrum til upplýsingar. Það var komið inn á borð til mín og ráðgjafa minna nokkrum dögum síðar, eða 30. apríl. Ég fór stuttlega yfir tillögurnar en fól svo sérfræðingum að fara ítarlega yfir þær og gera mér svo betur grein fyrir þeim.

Ég hef fulla samúð með bágri stöðu heimilanna og tel afar brýnt að komið sé til móts við vanda þeirra. Ég er tilbúin að skoða allar færar leiðir til að leysa vanda fólks í þessari erfiðu stöðu hér eftir sem hingað til.

Virðingarfyllst

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×