Viðskipti innlent

Fjármálafurstar flykkjast úr landi í öruggt skjól

Bankastjórar og aðrir kaupsýslumenn sem voru í fararbroddi útrásarinnar hafa nú flutt lögheimili erlendis þar sem þeir dveljast í öruggu skjóli frá riftunarkröfum skilanefnda föllnu bankanna. Skilanefndirnar vilja að ráðherra beiti sér fyrir lagabreytingum.

Margir auðmenn hafa flutt úr landi eftir bankahrunið. Nefna má Hreiðar Má Sigurðsson, fyrrverandi Kaupþingsforstjóra og Skúla Þorvaldsson, en báðir eru skráðir í Lúxemborg. Þá eru Margir í Bretlandi, eins og Ágúst og Lýður Guðmundssynir, Hannes Smárason, Ólafur Ólafsson, Ármann Þorvaldsson og nýlega Magnús Ármann, kaupsýslumaður kenndur við Ímon og viðskiptafélagi hans, Sigurður Ásgeir Bollason. Ekki hafa þeir þó allir út vegna hrunsins og einhverjir þeirra fluttu út vegna atvinnu sinnar eða hafa búið þar lengi, eins og t.d Ármann Þorvaldsson og Bakkabræður, þeir Ágúst og Lýður.

Fram kemur í Viðskiptablaðinu í dag að slitastjórnir og skilanefndir föllnu bankanna þriggja hafi skrifað efnahags- og viðskiptaráðherra bréf til að vekja athygli á því að þær geti ekki rift samningum þeirra sem mögulega fengu óeðlilega fyrirgreiðslu hjá bönkunum ef viðkomandi er með lögheimili erlendis. Er þetta vegna varnarþingsreglna.

Löggjafinn hefur látið hjá líða að innleiða Evróputilskipun um varnarþingsreglur við gjaldþrot fjármálafyrirtækja. Af þessum sökum hafa engin riftunarmál verið höfðuð gegn þeim sem eru búsettir erlendis og hefur þetta haft neikvæð áhrif á endurheimtur í þrotabúi gömlu bankanna.

En hvað ætla stjórnvöld að gera í málinu? „Við erum sem sagt að athuga lögfræðilegar afleiðingar þess ef menn flytja lögheimili og ég vil ekkert segja fyrirfram um það hver niðurstaðan úr þeirri vinnu verði. Þetta er bersýnilega eitt af því sem þarf að athuga," segir Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×