Viðskipti innlent

Nauðasamningur Sparisjóðs Mýrarsýslu samþykktur

Á atkvæðafundi þann 20. nóvember 2009 voru greidd atkvæði um nauðasamning fyrir Sparisjóð Mýrasýslu. Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar var sú að 90% kröfuhafa samþykkti nauðasamninginn, sem jafngilti 73% af fjárhæð þeirra krafna er lýst var. Engin atkvæði voru greidd gegn nauðasamningnum.

Í tilkynningu segir að umsjónarmaður nauðasamninga var Garðar Garðarsson hrl. Stærsti kröfuhafi Sparisjóðs Mýrasýslu, Nýi Kaupþing banki hf. (nú Arion banki hf.), naut ekki atkvæðisréttar á fundinum, þar sem bankinn er eigandi alls stofnfjár í sparisjóðnum.

Nauðasamningur sá er samþykktur var byggir á mikilli vinnu er unnin var síðasta vetur að af hálfu forsvarsmanna Sparisjóðs Mýrasýslu að fjárhagslegri endurskipulagningu sparisjóðsins, með sameiningu við Nýja Kaupþing banka hf. að markmiði. Bráðabirgðastjórn Sparisjóðs Mýrasýslu telur hér vera um mjög jákvæða niðurstöðu að ræða í ljósi þeirra aðstæðna er ríkt hafa á íslenskum fjármálamarkaði.

Er hér í raun um fyrstu fjármálastofnunina að ræða sem lýkur fjárhagslegu uppgjöri með nauðasamningum í stað slitameðferðar, sem telja verður að hafi verið mun hagstæðari niðurstaða fyrir kröfuhafa. Greiðsluhlutfall skv. nauðasamningnum nemur 67,6% almennra krafna.

Mun bráðabirgðastjórn Sparisjóðs Mýrasýslu nú óska staðfestingar héraðsdóms á nauðasamningnum og öðlast hann að því loknu gildi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×