Viðskipti innlent

Hrun innflutnings skýrir afganginn á vöruskiptum

Á fyrstu tíu mánuðum ársins hefur innflutningur til landsins minnkað um 43% á föstu gengi miðað við sama tímabil í fyrra. Þetta hrun í innflutningnum skýrir að stórum hluta mikinn afgang í vöruskiptum við útlönd.

Hagfræðideild Landsbankans fjallar um málið í Hagsjá sinni. Þar segir að afgangur af vöruskiptum við útlönd nam tæplega 60 milljörðum kr. fyrstu tíu mánuði ársins samkvæmt gögnum sem Hagstofa Íslands birti í gærmorgun. Á sama tímabili í fyrra var tæplega 50 milljarða kr. halli á vöruskiptum svo viðsnúningurinn er allverulegur.

Þegar hagkerfi gengur í gegnum gengisfellingu líkt og það íslenska hefur gert undanfarin tvö ár batnar staða útflutningsatvinnuvega mjög gagnvart erlendum samkeppnisaðilum. Að öðru jöfnu ætti slík þróun að auka útflutning viðkomandi hagkerfis. Að sama skapi batnar samkeppnisstaða innlendrar framleiðslu gagnvart erlendri og því ætti að draga úr innflutningi og hjálpast því bæði að, minni innflutningur og meiri útflutningur, við að bæta vöruskiptajöfnuðinn.

„Hér á landi hefur vissulega dregið úr innflutningi á meðan tölur um útflutning gefa til kynna að kerfið vinni nálægt fullum afköstum. Þannig hefur verðmæti útflutnings fyrstu tíu mánuði ársins lækkað um 26% frá sama tímabili í fyrra á föstu gengi sem má að miklu leyti skýra með verðþróun mikilvægustu útflutningsvaranna, fiskafurða og áls, á alþjóðamörkuðum. Innflutningur hefur aftur á móti dregist saman um 43% á tímabilinu á föstu gengi," segir í Hagsjánni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×