Skoðun

Nýttu kraftinn!

Það er sérstakt til þess að hugsa að nú sé að verða heilt ár síðan tilvera okkar Íslendinga fór hreinlega á hvolf í einu vetfangi. Það er einhvern veginn svo langt síðan en samt svo stutt, það hefur svo margt gerst en samt ekki neitt. Við erum enn stödd í óvissuskýi.

Eins og þúsundir annarra upplifði ég mína fyrstu uppsögn þegar starf mitt í Landsbankanum var lagt niður en bankahrunið varð til þess að verkefni sem ég stýrði hætti nær sjálfkrafa. Óvissan um framtíðina varð eðlilega mikil og vangavelturnar óteljandi. Ég ákvað þó fljótt með sjálfri mér að ég ætlaði að berjast, ég ætlaði áfram en ekki aftur á bak enda jákvæð og kraftmikil að eðlisfari.

Óvænt símtal með hvatningarorðum til mín frá Sigríði Snævarr sendiherra í byrjun nóvember leiddi til þess að við tókum höndum saman. Í sameiningu mótuðum við, stofnuðum og starfrækjum nú Nýttu kraftinn sem snýst um hvatningu og stuðning við atvinnulausa. Við þróun hugmyndafræðinnar nutum við góðra ábendinga frá fjölda sérfræðinga.

Forgangsmál að eyða atvinnuleysi

Markmið Nýttu kraftinn hefur frá upphafi verið að leggja baráttunni gegn atvinnuleysi lið. Það að fullfrísku og hæfileikaríku fólki hafi verið ýtt út af vinnumarkaðnum án þess að það hafi brotið af sér í starfi eða hæfni skort er ein versta afleiðing efnahagshrunsins. Það er forgangsmál að þessar aðstæður verði ekki til langframa og skapi óþarfa dýpri vandamál fyrir þjóðfélagið. Því fyrr sem þeir einstaklingar sem nú bíða tilbúnir á hliðarlínu vinnumarkaðarins komast inn á völlinn aftur, því fyrr geta þeir lagt hönd á plóginn í endurreisn samfélagsins.

Nýttu kraftinn er þriggja mánaða ferli þar sem rauði þráðurinn er að ganga til hvers dags sem vinnudagur væri. Þátttakendur eru hvattir til að nýta tíma sinn og kraft á jákvæðan og uppbyggilegan hátt – gera sig þannig samkeppnis­hæfari í atvinnuleitinni. Verkfærakista Nýttu kraftinn er full af ýmsum tækjum og tólum sem hjálpa þátttakendum að opna augun fyrir nýjum áherslum og tækifærum í atvinnuleitinni. Þátttakendur í Nýttu kraftinn nálgast því aðstæður sínar á allt annan hátt en það áður gerði. Það verður almennt mjög öflugt í atvinnuleitinni og einstaklega virkt í samfélaginu, svo jákvætt og athafnasamt að eftir því er tekið.

Árangur í Nýttu kraftinn

Stolt get ég sagt frá því að 135 einstaklingar hafa nú tekið þátt í Nýttu kraftinn frá því að fyrsti hópurinn fór af stað í febrúar síðastliðnum. Þetta þýðir enn fremur að 135 einstaklingar í atvinnulífinu frá um 90 fyrirtækjum og stofnunum hafa lagt okkur lið meðal annars sem mentorar en hver þátttakandi í Nýttu kraftinn er paraður við einstakling sem er virkur í atvinnulífinu. Hlutverk mentors er að hitta skjólstæðing sinn á klukkutíma fundi aðra hverja viku meðal annars til að hvetja viðkomandi áfram, ráðleggja og beita aga. Að auki hafa um 40 einstaklingar úr atvinnulífinu komið með innlegg eða setið sem áheyrnar- eða stuðningsfulltrúar á fundum hópanna og fjöldi fyrirtækja- og menningarstofnana hafa opnað hús sín fyrir Nýttu kraftinn. Við erum afar þakklátar fyrir velvildina og hversu margir eru tilbúnir að gefa af sér í stuðningi og hvatningu við þá sem eru tímabundið utan vinnumarkaðar.

Það er afar ánægjulegt að segja frá árangri þátttakenda í Nýttu kraftinn í atvinnuleitinni. Samantekt sýnir að a.m.k. 75% þeirra (fleiri í fyrstu hópunum) eru komnir í nýtt starf eða hafa markað sér skýr framtíðaráform þegar líður á ferlið. Störfin eru ýmist til framtíðar eða tímabundin auk þess sem fólk er duglegt að láta drauma sína rætast með því að fara í nám eða hrinda í framkvæmd sinni eigin hugmynd.

Þörfin er enn brýn og því heldur Nýttu kraftinn áfram að hvetja og styðja atvinnulausa í vetur. Starfsemi þessa litla fyrirtækis, sem hefur það að markmiði að verða lagt niður eins fljótt og kostur er, mun þó ekki ganga nema með áframhaldandi þátttöku svo fjölmargra. Hér koma því nokkur hvatningarorð í þágu atvinnuleitenda.

- Ég hvet stjórnvöld og viðeigandi stofnanir að tryggja það að einstaklingsframtak í baráttu gegn atvinnuleysi fái viðeigandi stuðning svo úthaldið bresti ekki.

- Ég hvet stéttarfélög að halda áfram góðum stuðningi við atvinnulausa félagsmenn ykkar – þið eruð vin í eyðimörkinni.

- Ég hvet atvinnulífið að halda dyrum sínum opnum og um leið starfsfólkið að taka aftur að sér hlutverk mentors. Fleiri mentorar og fyrirtæki eru vel þegin.

- Ég hvet fjölmiðla að vera vakandi fyrir og miðla miklu fleiri jákvæðum fréttum af kraftmiklu fólki og atvinnuskapandi verkefnum sem blása öðrum byr í seglin.

- Ég hvet atvinnuleitendur að nýta kraftinn sem býr innra með ykkur nú ekki síður en í ykkar fyrri störfum. Með því að nýta tímann á meðan þið eruð utanvallar á jákvæðan, markvissan og uppbyggilegan hátt munu tækifærin birtast eitt af öðru og það fyrr en síðar.

Látum ráðaleysið ekki verða alls ráðandi heldur nýtum kraftinn – þannig komumst við á beinu brautina og náum fyrr árangri.

Höfundur er viðskiptafræðingur og annar eigandi Nýttu kraftinn ehf.www.nyttukraftinn.is




Skoðun

Sjá meira


×