Viðskipti innlent

Gamlir farsímar eiga rétt á framhaldslífi

Græn framtíð blæs lífi í hálfónýta farsíma. Markaðurinn/Stefán
Græn framtíð blæs lífi í hálfónýta farsíma. Markaðurinn/Stefán
Gamlir, bilaðir og jafnvel ónýtir farsímar geta nú gengið í endurnýjun lífdaga og öðlast framhaldslíf í fjarlægum þróunarlöndum. Það er fyrirtækið Græn framtíð sem blæs nýju lífi í farsímana.

„Endurnýting eru einkunnarorð 21. aldarinnar," segir Bjartmar Alexandersson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Græn framtíð hefur gert samninga við fyrirtæki og ungmennafélög víða um land um söfnun gamalla farsíma. Fyrirtækið greiðir fyrir söfnunina en sendir símana áfram til erlendra fyrirtækja í Evrópu sem nýta íhluti úr mörgum símum til að búa til heila síma. Símarnir eru síðan seldir fyrir brot af upphaflegu kostnaðarverði til þróunarlandanna.

Nokkrir endursöluaðilar Grænnar framtíðar í Evrópu vinna með Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni sem sér alnæmissjúklingum í Afríkuríkinu Keníu fyrir farsímum en í álfunni er lítið um landlínur og farsímar því mun algengari samskiptamáti.

Farsímanotendur geta meðal annars skilað notuðum farsímum sínum í verslanir Tals við Suðurlandsbraut og í Kringlunni. Stefnt er að því að að endurvinna fleiri rafeindatæki með sama hætti, svo sem fartölvur, að sögn Bjartmars. - jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×