Viðskipti innlent

Útlendingar eignast Arion - boðað til blaðamannafundar

Skilanefnd Kaupþings, fjármálaráðuneytið og Arion banki hafa boðað til blaðamannafundar í húsakynnum Arion banka í Borgartúni klukkan tvö í dag.

Þar verður kynnt ákvörðun skilanefndar Kaupþings vegna eignarhalds á Arion banka. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra verður á fundinum og munu hann og Steinar Þór Guðgeirsson, formaður skilanefndar Kaupþings svara spurningum blaðamanna að kynningu lokinni.

Þann þriðja september síðastliðinn undirrituðu skilanefnd Kaupþings og íslenska ríkið samninga um uppgjör á milli Kaupþings og Arion banka, sem þá hét raunar Nýja Kaupþing.

Í tilkynningu segir að samningarnir hafi falið í sér tvo möguleika fyrir skilanefnd Kaupþings, annars vegar að Kaupþing eignaðist 87% hlutafjár íslenska ríkisins í Arion banka og þá yrði hlutur ríkisins 13%. Hins vegar að Kaupþing hefði þann kost að taka ekki þátt í fjármögnun bankans að svo stöddu en hefði þess í stað kauprétt á allt að 90% hlutafjár sem yrði virkur á árunum 2011-2015.

Samkvæmt heimildum fréttastofu náðist samkomulag upp úr miðnætti í gær sem er í samræmi við fyrri kostinn.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×