Viðskipti innlent

Fyrirtæki bankanna á hlutabréfamarkað

Sátt gæti skapast um eignarhald fyrirtækja sem ríkisbankarnir hafa tekið yfir með því að skrá þau á markað og gefa almenningi og fagfjárfestum kost á að kaupa hlutabréf þeirra í stað þess að setja þau í söluferli. Að sama skapi kann skráning fyrirtækja að hleypa nýju lífi í laskaðan hlutabréfamarkað.

Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar, segir viðræður hafa byrjað snemma á þessu ári og hafi bankastjórarnir þrír lýst yfir auknum áhuga á að markaðsvæða fyrirtæki sem hafi komist í þeirra hendur á haustdögum.

„Aðstæður eru fyrir hendi og markaðurinn er tilbúinn. Bankarnir verða sjálfir að ákveða hvaða fyrirtæki þeir telja að séu í þeim búningi að vera markaðshæf og hvort þeir telji hagstætt að fara inn á markaðinn," segir Þórður.

Áætlanir eru um að fimmtán fyrirtæki verði skráð á markað í Kauphöllinni á næstu misserum. Þórður segir helming þeirra kunna að koma úr ranni eignaumsýslufélaga bankanna. Á meðal fyrirtækja sem bankarnir eiga að öllu leyti eða hluta eru Húsasmiðjan, sextíu prósent í Teymi og fjörutíu prósent í Icelandair Group. Þá ræður Kaupþing yfir 1998, móðurfélagi Haga.

Viðmælendur Fréttablaðsins hjá bönkunum segja að skoða verði ýmsa þætti. Hugsanlega megi skrá einhver fyrirtæki á næsta ári. Stór rekstrarfélög með tryggan tekjugrunn, svo sem í smásölu, flugrekstri og fjarskiptum, geti verið góður kostur.

„Þetta getur verið mjög hagfelld leið fyrir bankana til að losa um eignahluti þeirra. Það hentar ekki í öllum tilvikum en gæti verið mjög æskileg leið, ef ekki sú besta," segir Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri Arion banka. - jab








Fleiri fréttir

Sjá meira


×