Erlent

Helmingurinn myndi stela viðskiptagögnum á vinnustað

Atli Steinn Guðmundsson skrifar

Næstum helmingur starfsmanna fjármálafyrirtækja í London og New York segjast myndu hafa á brott með sér viðkvæmar viðskiptaupplýsingar af vinnustað sínum yrðu þeir reknir.

Það var stjórnunarráðgjafarfyrirtækið Cyber-Ark sem kannaði hug 600 starfsmanna á Wall Street annars vegar og Canary Wharf í London hins vegar og spurði út í viðskiptagögn og hvernig menn umgengjust þau. Kom þá í ljós að 41 prósent þátttakenda hafði nappað slíkum gögnum við vinnustaðaskipti og tekið þau með sér til nýs vinnuveitanda.

Tæpur helmingur sagðist örugglega myndu taka gögn með sér og þriðjungur sagðist meira að segja hiklaust ganga svo langt að leka nefndum gögnum áfram kæmi það vinum þeirra að fjölskyldu að einhverjum notum. Fjórðungur starfsmannanna sagði fjármálakreppu heimsins hafa gert það að verkum að þeir bæru nú minna traust til vinnuveitenda sinna og væru þar af leiðandi reiðubúnir að sýna þeim minni hollustu en á meðan allt lék í lyndi.

Talsmaður Cyber-Ark segir í samtali við Reuters að þetta sýni svo ekki verði um villst að stór hluti starfsmanna sé tilbúinn að ganga mjög langt til að tryggja sér tekjur og vera áfram eftirsóttir á síharðnandi markaði - jafnvel að fremja lögbrot.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×