Erlent

Reyndi að eyða fóstri hjákonu

Óli Tynes skrifar

Breskur læknir hefur verið dæmdur í sex ára fangelsi fyrir að reyna að eyða fóstri ástkonu sinnar án hennar vitundar. Edward Erin er 44 ára gamall tveggja bjarna faðir.

Hann átti í stuttu ástarsambandi við hina 33 ára gömulu Bellu Prowse sem er ritari á sjúkrahúsinu þar sem þau bæði unnu.

Þegar Prowse neitaði að eyða fóstrinu reyndi læknirinn tvisvar að gefa henni lyf til þess að hleypa af stað fóstureyðingu. Í annað skipti var það í kaffi en í hitti skiptið í ávaxtasafa.

Prowse segir að sér hafi þótt ílátin eitthvað grunsamleg og því farið með þau til lögreglunnar.

Edward Erin segir hins vegar að hún hafi sjálf bruggað sér ólyfjan til þess að hefna sín á honum þegar hann vildi slíta sambandinu.

Eiginkona Erins læknis stendur með honum og spyr hvernig sé hægt að taka orð konu í hefndarhug framyfir orð virts læknis sem allt sitt líf hafi hjálpað fólki.

Þess má geta að Prowse fæddi heilbrigðan son sem hún skírði Ernie. Hann er ljóshærður og bláeygur en Erin er dökkur yfirlitum. Erin hefur lagt fram DNA sýni til faðernisrannsóknar en niðurstöður liggja ekki fyrir ennþá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×