Erlent

Flís úr krossi Krists sýnd í Páfagarði

Óli Tynes skrifar

Flísin úr krossi Krists er felld inn í gullkross sem Jústiníus annar keisari gaf íbúum Rómar á sjöttu öld. Hann hefur verið varðveittur í Páfagarði síðastliðin 1500 ár.

Hann er ýmist kallaður Vatikan krossinn eða kross Jústiníusar. Þótt krossinn sé úr skíra gulli og demöntum skreyttur er hann þó ekki talinn mesti dýrgripurinn í sjálfu sér.

Sá heiður fellur í skaut tréflísar sem sjá má inn um lítinn glugga í gullinu. Þar er krosslaga tréflís sem sögð er vera úr krossinum sem Jesús kristur var krossfestur á.

Á gullkrossinum stendur á latínu; Með trénu sem Kristur sigraði óvini mannsins með réttir Jústiníanus Róm hjálparhönd og eiginkona hans gefur skreytinguna.

Eftir langa notkun við ósandi kerti var krossinn orðinn nokkuð kámugur og dauflegur og hann var því tekinn til hreinsunar sem hefur staðið í tvö ár.

Hann hefur nú verið afhjúpaður að nýju og verður til sýnis í Péturskirkjunni til tólfta apríl.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×